Nanna kristín um skilnaðinn: „hann er bara mjög sár og erfiður“

Nanna Kristín leikur aðalhlutverkið, skrifar, framleiðir og leikstýrir gríndramanu Pabbahelgum sem slegið hafa í gegn á RÚV. Hugmyndin að þáttunum kviknaði þegar hún var í handritanámi í Vancouver í Kanada og flytur þangað með manni og tveimur börnum. Nanna Kristín er í viðtali við Sunnudagssögur á Rás 2.

Í náminu kviknaði hugmyndin að Pabbahelgum, hana langaði að skrifa kvenpersónu sem væri bara venjuleg og þyrfti að komast í gegnum daginn, koma börnum á leikskóla, karakterdrifið drama, en ekki sögudrifið. Á seinni stigum ákvað Nanna Kristín að söguhetjan gengi í gegnum skilnað.  Nanna Kristín segir um upphafsatriði fyrsta þáttar:

„Það er sjokkið sem Karen fær. Hún er bara á klósettinu að bursta tennurnar. Sér svo þessi skilaboð frá annarri konu. Er að undirbúa sig að gefa manninum sínum munnmök í afmælisgjöf, sem mér fannst húmor, það segir mikið um hvernig kynlífið er á bænum. Ég er ekki að reyna að hneyksla neinn eða ganga fram af fólki. En ef við ætlum að tala um skilnaði, og samband hjóna og kynjanna, þá spilar kynlíf mjög stóran part, og við verðum bara að sýna það“

Það tók sjö ár að komast frá hugmynd og á sjónvarpsskjáinn. Á þeim árum gerðist margt í lífi Nönnu Kristínar. Hún eignaðist barn og gekk svo sjálf í gegnum skilnað.

 „Það er búið að spyrja mig oft hvort ég sé að skrifa um minn skilnað, en ég er ekki að gera það. Ég byrjaði að skrifa þetta áður. Ég hef engan áhuga á að skrifa um minn eigin skilnað. Hann er bara mjög sár og erfiður, og held ég þurfi mörg ár í viðbót til að finna eitthvað kómískt þar.“

Þá leggur Nanna Kristín mikla áherslu á að skilnaðurinn sjálfur sé ekki það eina sem þættirnir fjalla um.

„Mér fannst mjög skemmtileg viðbrögð við fyrsta þættinum hvað fólk tengdi við litlu hlutina í þættinum – að sitja við morgunverðarborðið, setja bílstólinn í bílinn, gleyma að setja búninginn í skottið. Það er líka drama og þetta manneskjulega sem ég vildi sýna.“