Minnisblöð james comeys birt

Minnisblöð James Comeys fyrrverandi forstjóra FBI hafa verið birt. Minnisblöðin lýsa á 15 síðum samskiptum hans og Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem rak Comey fyrir tæpu ári.

Comey hefur áður skýrt frá innihaldi minnispunktanna en í þeim kemur skýrara fram en áður nákvæmlega hvað Trump sagði á sínum tíma.

Til dæmis skrifar Comey að Trump teldi fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa sinn Michael Flynn hafa „sérlega lélega dómgreind.“ Þá kemur fram að þáverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins Reince Preibus hafi spurt Comey fimm dögum áður en Flynn var látinn fara hvort FBI væri með leyfi til að hlera samskipti Flynns.

Eins segja minnisblðin að Trump hafi hvatt Comey til að hætta að rannsaka Flynn því hann væri svo „góður gæi.“ Trump hafi líka neitað beint „þessu með gylltu sturturnar“ eins og hann orðaði ásakanirnar um að myndband væri til af forsetanum með pissandi vændiskonum á hótelherbergi í Moskvu.

Bók Comeys, A Higher Loyalty, kemur út í dag. Í kjölfar viðtala við Comey um bókina í fjölmiðlum hefur Trump kallað Comey öllum illum nöfnum: „slímbolta, lygara og versta forstjóra FBI frá upphafi.“