Milljarður rís í hádeginu

Milljarður rís í hádeginu

Dansbyltingin Milljarður rís verður haldin í Hörpunni og víða um land í sjöunda sinn í hádeginu í dag, þegar fólk mun koma saman og dansa fyrir heimi þar sem allir, óháð kyni og kynhneigð, fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. UN Women samtökin fagna 30 ára afmæli í ár og því verður viðburðurinn sérlega veglegur að þessu sinni.

Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá UN Women.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun setja viðburðinn með örfáum orðum í upphafi og líkt og fyrri ár mun plötusnúðurinn DJ Margeir stýra tónlistinni. Fær hann til liðs við sig hóp tónlistarfólks, þar sem Þú og ég, Amabamadama, Auður, Svala Björgvins, GDRN, Högni, Daníel og Cell7 munu koma fram.

Nýja Fokk ofbeldi húfan verður til sölu á staðnum auk nýs FO söluvarnings og rennur ágóðinn til verkefna UN Women sem vinna að því að uppræta kynbundið ofbeldi um allan heim.

Í fyrra var viðburðurinn haldinn í yfir 200 löndum víðs vegar um heiminn. Á Íslandi kom fjöldi fólks saman á öllum aldri um allt land og í ár verður aftur dansað um allan heim sem og víða um landið.

Dansbyltingin Milljarður rís stendur frá 12:15 til 13:00 í dag og mun fara fram í Hörpu í Reykjavík, félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Fosshóteli á Húsavík, íþróttahúsinu á Sauðárkróki, íþróttahúsinu á Neskaupstað, íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum, í Hnyðju í Hólmavík, íþróttahúsinu á Grundarfirði, Nýheimum á Höfn í Hornafirði, íþróttahúsinu Iðu á Selfossi og Hofi á Akureyri.

Nýjast