Mikið um undirboð í ferðaþjónustunni

Dæmi eru um að ökuleiðsögumenn á vegum erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu hér á landi fá greiddar tólf til fimmtán þúsund krónur á dag. Íslenskir ökuleiðsögumenn fá aftur á móti fjörutíu til sextíu þúsund.
 
Halldór Grönvold, deildarstjóri félagsmáladeildar ASÍ, segir að göt séu í reglum um evrópska efnahagssvæðið og því komist erlendu fyrirtækin upp með að greiða slík laun. Fyrir Alþingi liggur frumvarp sem kveður á um að starfsmenn erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu fái kjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum. „Það er ekki óalgengt að þessir starfsmenn séu með svona frá 100 til 115 evrum á dag þegar þeir eru með hóp. Þetta eru sem sagt á milli 12.000 og 15.000 krónur á dag. Íslenskur fararstjóri, eða það sem kallað er ökuleiðsögumenn, þetta er yfirleitt ungt fólk sem hefur engin réttindi sem slík, í svipuðum ferðum eru með 40.000 til 60.000 krónur á dag. Þannig að við erum að tala um veruleg undirboð á vinnumarkaði,“ sagði Halldór í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.