Mesta aðsókn á íslenskar kvikmyndir síðan 2000

Aðsókn á íslenskar kvikmyndir í kvikmyndahúsum á árinu 2018 nam rúmlega 164 þúsund gestum, sem er mesta aðsókn á íslenskar kvikmyndir síðan árið 2000. Lof mér að falla undir leikstjórn Baldvins Z er mest sótta íslenska mynd ársins með tæplega 53.000 áhorfendur og næstmest sótta myndin yfir höfuð á eftir Mamma Mia! Here We Go Again.

Á meðal þeirra íslensku mynda sem hlutu einnig góða aðsókn voru Víti í Vestmannaeyjum undir leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar með rúmlega 35.000 áhorfendur, Lói – Þú flýgur aldrei einn undir leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar með rúmlega 24.000 áhorfendur og Kona fer í stríð undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar með tæplega 20.000 áhorfendur.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í greiningu Klapptrés á aðsókn og tekjum sýndra íslenskra kvikmynda í kvikmyndahúsum og fréttatilkynningu FRÍSK vegna aðsóknar og tekna allra sýndra kvikmynda í kvikmyndahúsum.

Í greiningu Klapptrés kemur fram að hlutfall íslenskra kvikmynda hafi verið 13,3% af tekjum kvikmyndahúsanna, sem er besti árangur íslenskra kvikmynda síðan árið 2014 (sem þá var einnig 13,3%).

FRÍSK segir árið hafa verið gott fyrir íslensk kvikmyndahús yfir höfuð þar sem tekjuaukning hafi verið um 6,4% frá árinu áður og að tæplega 74.000 fleiri gestir hafi heimsótt kvikmyndahúsin en árið áður, sem er tæplega 5,4% fjölgun. Samtals voru tekjur kvikmyndahúsanna á liðnu ári 1.688.453.577 kr. og seldir miðar voru alls 1.445.445.