Bríet losaði sig við 60 kíló: „hefur aldrei liðið verr!“

Bríet Ósk Moritz segir að læknar hafi skrifað bakverki, sem hún hefur þjáðst af í 17 ár, á yfirþyngd hennar. Eftir að hún léttist hafi verkirnir þó ekkert batnað, þvert á móti hafi henni aldrei liðið verr. Bríet greindist loks með vefjagigt, sem þyngdartapið hefur lítil áhrif á. Hún er nú í endurhæfingu, sem hún vonast eftir að muni hjálpa sér. Þá vonar Bríet að aðrir í svipuðum sporum fái betri aðstoð en hún fékk.

„Frá því ég var um það bil 10 ára hef ég þjáðst af mjög alvarlegum bakverkjum. Þegar ég fór til læknis var svarið alltaf einfalt: „Þú ert bara of þung.“ Þegar ég var 14 ára fór ég til kírópraktors og kom þá í ljós að ég væri með tvær hryggskekkjur, skakka mjaðmagrind og skakkan hryggjarlið í hálsi, sem segir mér að þetta einfalda svar um yfirþyngdina sé ekki alveg svona einfalt.“

Þannig hefst athyglisverð frásögn Bríetar, sem hún birti á Facebook-síðu sinni á dögunum.

Bríet lýsir því hvernig hún hafi komið sér í kjörþyngd með það fyrir augum að bæta heilsu sína. „Eftir því sem árunum leið minnkaði sársaukinn aldrei þrátt fyrir ítrekaðar ferðir til kírópraktors og sjúkraþjálfara, en eins og læknarnir sögðu alltaf, ég var bara of þung.“

Þrátt fyrir fullyrðingar lækna um að Bríeti myndi líða betur þegar hún kæmist í kjörþyngd hefur reyndin orðið önnur. Bríet hefur þjáðst af verkjum í samfleytt 17 ár og hefur raunar aldrei liðið verr:

„Árið 2018 ákvað ég að stíga skrefið sem þurfti til að losa mig við þessa yfirþyngd og þar með þessa blessuðu bakverki sem voru að takmarka lífsgæði mín til muna. Í dag er ég búin að missa hátt í 60 kíló og komin í þessa gullnu „kjörþyngd“ sem átti að leysa öll mín heilsufars vandamál og þar með alla mína bakverki. Hins vegar rann upp blákaldur sannleikurinn þegar öll þessi kíló voru farin að mér leið bara alls ekkert betur, þvert á móti hefur mér bara aldrei liðið verr!“

Hún segir frá því því þegar hún fékk loksins almennilega læknishjálp og var greind með vefjagigt. „Þegar ég fór þá til læknis og mér var sinnt sem manneskju en ekki bara feitri stelpu sem þurfti bara að létta sig fékk ég loksins alvöru hjálp þar sem hinni raunverulegu ástæðu verkjanna var leitað. Eftir miklar rannsóknir kom í ljós að ég er með vefjagigt á hæsta stigi sem þyngdartapið hefur lítil áhrif á.“

Í veikindaleyfi í hálft ár

Bríet hefur nú verið í veikindaleyfi síðan í febrúar á þessu ári og byrjaði í vikunni í fimm vikna endurhæfingu hjá Þraut - miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma.

„Ég veit að gigtin mun fylgja mér það sem eftir er en ég held fast í vonina að eftir þessa meðferð verði ég loksins aftur vinnuhæf sem og hæf til að njóta daglegs lífs án stöðugra verkja og vanlíðan]“ segir hún.

Vonast eftir því að aðrir fái betri aðstoð

Bríet segir að markmiðið með því að deila sögu sinni sé ekki að fá vorkunn og segja öllum frá því hvað hún eigi bágt. „Markmiðið er einfaldlega það að vonandi einhver, einhvers staðar sem er í yfirþyngd fái betri aðstoð en ég fékk öll þessi ár. Að einhver einhversstaðar í yfirþyngd verði álitin sem manneskja og fái viðunandi greiningu út frá eigin veikindum en ekki bara hinn sívinsæla stimpil „þú þarft að létta þig og þá verður allt í lagi.“

„Ég hef núna verið verkjuð samfleytt allan daginn, alla daga í 17 ár. Ef þú sem ert að lesa þetta tengir við eitthvað af minni sögu, ekki láta neinn segja þér að ástæðan fyrir þínum verkjum og vanlíðan sé yfirþyngdin án þess að gera neinar rannsóknir á þínum eigin líkama, við erum nefnilega svo miklu meira en bara yfirþyngdin,“ segir hún að lokum.