Matthildur soffía er látin: réð drauma, spáði fyrir veðri og hlustaði á varðmann fjörunnar

Matthildur Soffía Maríasdóttir fæddist á Gullhúsám á Snæfjallaströnd 14. maí 1919. Hún lést á dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 4. október 2019. Hún var lengi virk í kvenfélagi Hraunhrepps og einnig félagi í Kvennalistanum. Í þingkosningunum 1987 var hún í heiðurssæti listans í Vesturlandskjördæmi. Matthildur giftist árið 1940 Einari Sigurbjörnssyni rafvirkja og eru afkomendur þeirra 65.

Matthildur, sem var 100 ára þegar hún lést er lýst sem mikilli merkiskonu og höfðingja af þeim sem kynntust henni. Hún var vestfirsk og vinstrisinnuð með miklar skoðanir á stjórnmálum. Hún bjó lengi í Hjörsey á Mýrum ásamt eiginmanni sínum en þangað fluttu þau árið 1958. Þegar Einar lést árið 1975 hætti hún búskap.

Ættingjar og barnabörn lýsa kostum hennar í Morgunblaðinu. Hún vaknaði fyrst á morgnana og kveikti upp í eldinum með spreki sem var tínt í eyjunni. Á eldavélinni mallaði hafragrautur og hellt var upp á kaffi. Um leið og börnin tíndust fram voru þau yfirheyrð um drauma næturinnar. Eldhúsið var miðpunktur alls og þar var hún alltaf mætt fyrst. Eitt barnabarnið lýsir þessu svo:

„Amma spáði í bolla og réði drauma en viður­kenndi sjálf með kankvíslegu brosi að þannig næði hún að ræða við okk­ur um það sem lægi á hjarta. Hún eldaði mat úr engu og þegar átti að fúlsa við soðning­unni feng­um við að heyra að við hefðum aldrei verið svöng.

Hún kenndi með því að hengja upp þvott og strauja, hreinsa dún, ham­fletta lunda og höggva í eld­inn.

Hún var dug­leg­asta mann­eskja sem ég hef þekkt af því að hún þurfti að vera það. Hún fædd­ist fyr­ir 100 árum á ysta bæn­um við Snæfjalla­strönd.“

\"\"

Sá síðasta ómagann seldan á uppboði

Matthildur ólst upp við mikla fátækt og ómegð. Fimm ára gömul var hún fyrst send til vandalausra en þá um stutta hríð. Á tíunda ári fór hún til frænku sinnar sem var ráðskona hjá sr. Friðriki Friðriks­syni í Reykja­vík. Þar átti Matthildur góð ár og fékk að ganga í skóla.

Þegar Matthildur var svo 12 ára barst bréf þar sem stóð að nú væri búið að ráða hana í vist í Önundarfirði. Báturinn átti að fara daginn eftir. Þar með lauk bernskunni og vinnan tók við.

Eitt barnabarnið segir svo frá því að þar sá Matthildur síðasta sveitarómagann seldan á uppboði. Þetta var gömul kona sem gekk prjónandi á eftir vagni. Barnabarnið skrifar:

„Þetta snart ömmu því að heim­ili ömmu henn­ar hafði verið leyst upp eft­ir að afi henn­ar og móður­bróðir fóru í Djúpið og mamma henn­ar átti erfitt líf sem ómagi. Amma fór í ýms­ar vist­ir eft­ir þetta.“

Eftir að Matthildur hætti búskap starfaði hún í níu ár sem matráðskona á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Hún var lengi virk í kvenfélagi Hraunhrepps og einnig félagi í Kvennalistanum. Í þingkosningunum 1987 var hún í heiðurssæti listans í Vesturlandskjördæmi.

Fjölmargir minnast Matthildar í Morgunblaðinu sem og á samfélagsmiðlum og ljóst að þar fór merk kona sem hefur tekist á við djúpa sorg og mikla gleði á sinni lífsleið. Henni er hrósað fyrir ýmsa mannkosti. Hún var snillingur í að halda veislu, gera mikið úr litlu og oft nánast úr engu sem fólk gæddi sér á með bestu lyst. Í Morgunblaðinu segir:

„Ég á mynd­band af Matt­hildi þar sem hún kem­ur utan af eyju með þriggja metra lang­an staur í eft­ir­dragi, þaðan að þurrka skó, því næst í dún­inn og loks að stjórna öðrum aðgerðum. Þá var Matt­hild­ur orðin rúm­lega níræð. Hún gekk af sér tengda­syn­ina hvern af öðrum og rak niður staura með Ásmundi ef svo bar undir. Orðið of­ur­kona fékk nýja merk­ingu með frú Matt­hildi og það eru orð að sönnu!“

Matthildur fylgdist með af miklum áhuga hvað var að gerast í þjóðfélaginu og útvarpið fylgdi henni hvert sem hún fór. Ef hún tjáði sig, þá var hlustað. Í Morgunblaðinu segir:

„Ég þekki eng­an sem á tíræðis­aldri, allt fram á síðasta dag, horfði á Alþingi í beinni, Silfrið, hlustaði á Sprengisand og las öll dag­blöðin spjald­anna á milli.“

Þá segir á öðrum stað:

„Matt­hild­ur hafði ein­stakt lag á að koma og dvelja hjá okk­ur þegar mest á reyndi. Það var eins og hún fyndi á sér ef það var eitt­hvað sem þurfti aðstoð við, eitt­hvað var ekki eins og það átti að vera.

Ef svo bar und­ir þá dró hún fram spá­boll­ann og veiddi sann­leik­ann upp úr fólki á snilld­ar­leg­an hátt. Gaf ráð og fylgdi þeim þétt eft­ir.“

Þá segir einn um Matthildi að hún hafi kennt krökkunum að deila jafnt og stóð með þeim sem minna mega sín.

„Á sumr­in úti í Hjörs­ey inn­rætti hún okk­ur barna­börn­un­um gildi jöfnuðar, þar sem hverj­um sæl­gæt­is­mola sem rataði í sveit­ina var skipt jafnt og ekk­ert barn fékk meira en annað.

Hún spáði í bolla og fann þannig lyk­il að öll­um okk­ar leynd­ar­mál­um. Hún hafði trú á for­boðum, réð drauma og spáði fyr­ir veðri með því að líta til Snæ­fells­jök­uls. Hún hlustaði líka á fugl­ana, sér í lagi tjald­inn, sem hún sagði varðmann fjör­unn­ar.“

Þá segir einn sem minnist hennar:

„Lífið var vissu­lega ekki alltaf dans á rós­um hjá Matt­hildi frek­ar en öðru fólki en hún hafði kjark og dug og þor og styrk til að standa keik og upp­rétt á hverju sem gekk og horfa sátt fram­an í heim­inn – og hlæja ef svo bar und­ir!“