Margrét segir konu hafa beitt hana ofbeldi á alþingi

Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar og varaþingmaður Samfylkingarinnar, tók þátt í könnun dr. Hauks Arnþórssonar um ofbeldi sem alþingiskonur hafa orðið fyrir. Þar kom fram að 80 prósent kvenna hafi verið beitt annað hvort líkamlegu, kynferðislegu, andlegu eða efnahagslegu ofbeldi. Margrét er ein þeirra kvenna sem hefur verið beitt ofbeldi á þingi.

„Ég er ein þeirra sem sem játaði því að hafa verið beitt andlegu ofbeldi þegar ég starfaði á Alþingi. Það var samt alls ekki „kynbundið ofbeldi“, bara hreint ekki og núverandi og fyrrverandi þingmenn hafa stigið fram og greint frá svipaðri hegðun og framkomu frá sömu manneskjunni.“

Margrét segir að gerandinn hafi verið kona og vinnufélagi hennar á þingi.

„Ég er að tala um það sem ekki er hægt að kalla annað en andlegt ofbeldi frá vinnufélaga. Þá fannst mér líka oft „svínað á“ þeim þingflokki sem ég sat í þá af „valdakerfinu“ inni á þingi. Ástæðurnar voru að mínu mati þær a) að við vorum ekki hluti af flokkakerfinu og b) að við vorum minnsti þingflokkurinn. Það var ekki kynbundið ofbeldi en mætti samt alveg kalla einhvers konar ofbeldi.“

Þá kveðst Margrét vera hugsi yfir því að aðeins hafi verið óskað eftir svörum frá kvenmönnum:

„Ég velti líka fyrir mér hvernig hægt er að leggja mat á ofbeldi gegn konum sérstaklega án þess að kanna hvort karlar hafi orðið fyrir ofbeldi. Ég þekki alveg dæmi þess, bæði á Alþingi og annars staðar.“