Margra milljarða mót

Áætlað hefur verið að Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA þéni um 539 milljarða króna vegna HM í Rússlandi. Mest munar um sölu sjónvarpsréttar eða rúmur helmingur. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir að Knattspyrnusamband Íslands fái um 1,3 milljarða króna frá FIFA fyrir að komast á HM og spila leikina þrjá í riðlakeppninni. Komist íslenska liðið lengra hækka greiðslurnar.

Fyrir þátttöku og árangur á EM í Frakklandi fékk KSÍ 1,9 milljarða frá UEFA

Leikmenn bera líka mikið úr býtum hver fyrir sig. Íslensku landsliðsmennirnir fengu minnst 18 milljónir króna hver fyrir þátttöku sína á EM fyrir tveimur árum og leikina í undankeppninni. Greiddir verða bónusar til leikmanna á HM nú en en KSÍ mun ekki upplýsa um þær greiðslur fyrr en í uppgjöri ársins.