Margir á vinnualdri með „ónýta kennitölu“

„Við ákváðum að einbeita okkur að fólki sem er í þeirri stöðu að vera komið yfir miðjan aldur, þarf eða vill af einhverjum ástæðum leita sér að vinnu og er í raun og veru með gjörsamlega ónýta kennitölu“, segir Viðar Eggertsson, sem leikstýrir auglýsingaherferð þar sem vakin er athygli á aldursfordómum á atvinnumarkaði.

Viðar er gestur Lindu Blöndal í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í kvöld.

Fólk á miðjum aldri, karlar og konur um fimmtugt og yfir, skráir sig á ráðningarskrifstofur og lendir í því að það er ekki hringt einu sinni í það. „Margar ráðningarskrifstofur beinlínis leggja slíkar umsóknir til hliðar bara útaf kennitölunni og horfa ekki einu sinni á starfsaldur, reynslu, menntun eða neitt slíkt“, segir Viðar.

Mikill fjöldi eldri borgara

Viðar segir að fjöldi fólks á landinu sem er orðið sextugt sé yfir 50.000. Þegar fólk verði sextugt verði það gjaldgengt í Félög eldri borgara, sem eru svo hluti af Landssambandi eldri borgara. Landssambandið stendur á bakvið herferðina sem Viðar leikstýrir og er hún styrkt af velferðarráðuneytinu.

Eldri borgarar er stór og víðfeðmur hópur. „Þetta aldursbil getur spannað yfir þrjár kynslóðir. Ég veit að elsti maður Íslands verður 104 ára núna 5. febrúar og elsta barnabarnið hans verður daginn eftir sextugur“, segir Viðar

Nánar er rætt við Viðar og sýnd brot úr auglýsingaherferðinni í 21 á Hringbraut kl. 21:00 í kvöld.