Mannréttindadómstóllinn skoðar landsrétt

Réttur mánuður er síðan Hæstiréttur kvað upp úr um að seta Arnfríðar Einarsdóttur dómara í Landsrétti væri ekki andstæð lögum. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson verjandi manns sem stefnt hafði verið fyrir réttinn taldi setu Arnfríðar í honum brot á lögum og ákvæðum mannréttindasáttmála, þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði brotið lög með því að skipa Arnfríði og þrjá aðra dómara í Landsrétt en hæfisnefnd taldi aðra hæfari.

Niðurstaða Hæstaréttar var kærð til Mannréttindadómstólsins í Strassborg í lok maí. Mannréttindadómstóllinn hefur nú mánuði síðar ákveðið að taka málið til skoðunar og sendi á dögunum íslenska ríkinu bréf þess efnis.

Spurningar Mannréttindadómstólsins til íslenska ríkisins eru í tveimur liðum. Þar er meðal annars spurt, hvernig það samrýmist ákvæði mannréttindasáttmála, að skipun dómara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dómaraefni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um tillögu ráðherrans í heild eins og gert var. Enn fremur er spurt um niðurstöðu Hæstaréttar frá í maí í samhengi við fyrri dóm Hæstaréttar um brot ráðherrans á lögum við skipunina. Með öðrum orðum vill Mannréttindadómstólinn vita, hvernig ólögleg skipan dómara geti haldist í hendur við þá niðurstöðu að sömu dómarar sitji löglega í réttinum.

Nánar á mbl.is;

http://www.ruv.is/frett/mannrettindadomstollinn-skodar-landsrett