Magnús tætir í sig skólakerfið: „á að vera þannig að við eigum að spotta það hvar viðkomandi nýtur sín best“

„Þetta á að vera þannig að við eigum að spotta það hvar viðkomandi nýtur sín best. Þannig á skólakerfið að vera, þannig að þú komir út fullur af sjálfstrausti og þú átt að trúa því þegar þú ert 16 ára að allir vegir séu færir. Þegar búið er að brjóta þig niður í prófum ár eftir ár, þá sjá menn hvað þetta er fáránlegt.“

Þetta hafði Magnús Scheving stofnandi Latabæjar að segja við hlaðvarpið Prímatekið. Þar var rætt um kosti og galla skólakerfisins á Íslandi. Þar kvaðst Magnús vera á móti því að nemendur taki próf sem og á móti einkunnargjöf.

 „Þarna er krakkinn heima hjá sér að fara á taugum yfir því að próf séu að koma. Myndir þú vilja fjármálastjóra sem væri á taugum í vinnunni hjá þér daginn áður en mikilvægasti fundurinn væri? Þess vegna eiga krakkar ekki að hafa áhyggjur af prófi. Það eru kennarar sem eiga að hafa áhyggjur af prófunum, því ef krakkinn fellur, þá missir kennarinn djobbið.“

„Sumir eru bara ekkert góðir í því að lesa texta og muna. Það er til fullt af fólki sem er rosalega handlagið en er mjög lélegt í stærðfræði. Ég þekki rosalega marga sem eru lélegir í því að muna nöfn en eru gríðarlega færir á öðrum sviðum. Þetta er galið!“