Má loks heita alex

Í dag felldi héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi úrskurð mannanafnanefndar, sem hafði bannað stúlku að bera nafnið Alex. Foreldrar hinnar sex ára gömlu Alexar Emmu höfðu staðið í baráttu við íslenska ríkið í fimm ár vegna nafnsins. RÚV.is greinir frá.

Foreldrar Alexar Emmu þurfa ekki að sækja formlega aftur um að hún fái að bera nafnið þar sem dómurinn ákvað sérstaklega að veita henni leyfi til þess. Faðir hennar, grafíski hönnuðurinn, leikstjórinn og tónlistarmaðurinn Ómar Hauksson, fagnar niðurstöðunni og segir að haldið verði upp á sigurinn með því að sækja um vegabréf fyrir dótturina og fara til útlanda.

Þar til í dag hét dóttir þeirra enn „Stúlka“ í þjóðskrá þrátt fyrir að vera kölluð Alex Emma af öllum sem hana þekkja. Fyrir sex árum hafnaði mannanafnanefnd nafninu á þeim grundvelli að það væri töluvert algengt í íslensku máli sem karlmannsnafn og að engin dæmi væru um að það væri notað sem kvenmannsnafn.