Lúxusíbúðir ekki vandamálið

Þingmenn Reykjavíkurkjördæmis komu í Þjóðbraut í gærkvöld og rýndu í kosningarnar laugardaginn 26.maí, en þar voru á fleti Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki, Björn Leví Gunnarsson Pírati og Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu.

Fókusinn í þættinum er á helstu einkenni á þróun Reykjavíkurborgar og stærstu kosningamálin. 

Brynjar telur lítið sem ekkert hafa gerst í borginni undanfarin áratug eða svo að frátöldum ferðamannastraumnum. Aðallega hafi einkenni borgarinnar verið að ekkert hafi þar veirð byggt af íbúðahúsnæði. Helga Vala bendir á fjöldann sem nú sé verið að byggja. Hvað varðar rándýrar lúxusíbúðir sem rísa í miðborginni rétt við Hörpu nú segja þingmennirnir slíkt ekki vera sérstakt vandamál í skipulagsþróun borgarinnar, slíkt sé þekkt í borgum um heim allan, að dýrar fasteignir séu á slíkum stöðum. Aðalvandi Reykjavíkur segir Brynjar að það vantar ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk. Um öll fjölda framboðanna í kosningunum nú, þau eru 16 talsins, telur Björn Leví vera merki um vantraust á stjórnmálamönnum og flokkum sem fyrir séu, frekar en óbilandi áhuga á borgarmálum en Brynjar segist telja þennan fjölda ekki gagnast lýðræðinu nema síður sé, sterkir flokkar séu lýðræðinu meira gagn en mörg lítil framboð sem hann telur verða popúlísk eða með mjög óljósa pólitíska stefnu. 

Samgöngur og Borgarlínan er einnig rædd en hvort hún verði kosningamál segja þingmennirnir þrír mjög óvíst og almennt mjög óvíst hvað í raun kosið verði um. Áformin telja þau Helga Vala og Björn Leví jákvæð en Brynjar telur menn lifa í draumi um að búa í einhverri annarri útlenskri stórborg sem Reykjavík muni aldrei verða.