Lögregla vildi láta flytja bjarna á geðdeild í dag vegna skrifa um katrínu jakobsdóttur

„Ég var fyrir undarlegri reynslu í dag – og þó, kannski ekki. Sigurður Páll réttargeðlæknir á Kleppi hringdi í mig og sagði mér borgarlæknir og lögreglan hefðu verið að hringja í sig síðan í morgunn, síendurtekið, og vildu fá hans leyfi fyrir því að sækja mig heim og flytja mig á geðdeild, því ég væri dópaður, geðveikur og hættulegur. Lögreglan kvaðst merkja það af skrifum mínum á Facebook.“

Þetta segir skáldið, listamaðurinn og myndlistarmaðurinn Bjarni Bernharður Bjarnason á Facebook en hann tjáir sig einnig um málið við Hringbraut. Þar greinir hann frá því að lögreglan hafi viljað láta handtaka hann og flytja á geðdeild vegna skrifa hans um hugrenningar hans síðustu mánuði til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Vísir og DV greindu frá því í síðustu viku að Bjarni hefði endurtekið lýst yfir ást á Katrínu í einlægri færslu á Facebbok. Vonaðist hann til þess að með því að opinbera hug sinn með þessum hætti myndi hann öðlast frelsi frá þjáningum sínum. Bjarni sagði þar:

„Hjarta mitt er að springa af harmi, dag og nótt víkur þessi kona ekki úr huga mínum – er ég heltekinn af ást til hennar, heltekinn af ást til Katrínar Jakobsdóttur. Ég veit að ég verð spottaður vegna fáránleikans – en mér er slétt sama.“

Þá sagði Bjarni á öðrum stað: „Láttu þér ekki bregða við það sem ég segi núna, vertu alveg svellköld og stóísk: Katrín Jakobsdóttir, ég legg ástarhug til þín – og hef gert í nokkur ár. En óttastu ekki, ég mun ekki áreita þig eða ofsækja á nokkurn hátt – heldur mun ég varðveita þessa fögru ást í hjarta mínu, þar sem hún mun verða eldur míns sköpunarkrafts.“

Bjarni sendi einnig póst á aðstoðarmann Katrínar þar sem sagði: Katrín er sú síðasta sem hefur heltekið mig að nokkrum konum á lífsleiðinni. Þessi sjúkdómur er mjög hættulegur og sjálfsvígstilfellin ótalmörg. Ég hef verið að þróa sjúkdóminn gagnvart Katrínu með mér í allnokkurn tíma, og nú á dögunum, þegar ég var orðinn svo heltekinn af honum, að ég sá fram á að brugðið gat til óheilla, þá sá ég ekki annan kost í stöðunni en henda þessu út fyrir veggi hússins – á Facebook. Þó var mér ljóst að á þeirri vefsíðu var málið kannski ekki best komið, vegna þess að slaðurtungur myndu hæða mig og spotta, en ég átti ekki annan kost í stöðunni – vanlíðanin var svo hrikaleg. Þó hefur sú opinberun þegar skilað miklum árangri, ég er laus undan áþjáninni og get rætt málið við vini mína, frjálslega og óþvingað. Áður var ég með þetta í felum og það eitt þrengdi mjög að mér. Nú sé ég fram á að ég sé að læknast. Þú ættir að sýna Katrínu þessi skrif, þá skilur hún málið í heild sinni, en í mér bærist sá órói að hún misskilji allt heila málið – og stimpli mig sem eltihrelli.“

Bjarni segir í samtali við Hringbraut.is að svo virðist sem lögreglan hér á landi hafi séð of margar amerískar bíómyndir. Bjarni segir:

„Þetta er svo fordómafullt. Hvaðan hefur lögreglan þær hugmyndir að ég sé hættulegur, ég hef aldrei verið hættulegur maður.“

Bjarni segir að Sigurður Páll réttargeðlæknir hafi neita lögreglu um leyfið og fyrst viljað ræða við hann og mætti Bjarni á stofuna hjá geðlækninum.

„Ég talaði við hann í eina og hálfa klukkustund og hann kvaddi mig innvirðulega og bað mig vel að lifa – það væri engin fótur fyrir því sem lögreglan staðhæfði,“ segir Bjarni og bætir við að Sigurður Páll hafi bent á að í ljósi sögu Bjarna hafi þeir líklega ákveðið að óska eftir innlögn. Bjarni varð manni að bana árið 1988 þegar hann átti við veikinda að stríða og hefur ekki brotið af sér með neinum hætti síðan þá. Bjarni lýsti í viðtali við Sigmund Erni á Hringbraut árið 2017 hvernig sýrunotkun hefði á endanum kippti undan honum fótunum; afleiðing stöðugra sýruflippa birtist honum í alvarlegum geðklofa sem átti eftir að fanga Bjarna næstu árum, með þeim hræðilegu afleiðingum að á endanum varð hann leigusala sínum í Reykjavík að bana. Þá sagði einnig í þætti Sigmundar Ernis:

\"Á seinni árum hefur Bjarni öðlast nokkra sálarró, geðklofaköstin eru að baki, skáldskapurinn hefur aldrei verið meiri, en eftir situr samt brotin sál sem bíður þess ekki bætur að hafa verið útskúfuð, hædd og hrakin þegar á barnsaldri.

Bjarni er ósáttur við afskiptasemi lögreglu, telur að um fordóma sé að ræða. Hann hafi fengið frelsi á sínum tíma og því verið treyst af dómstólum til að brjóta ekki af sér aftur, sem hann hafi ekki gert á öllum þessum árum síðan honum var veitt frelsi. Bjarni segir um afskiptasemi lögreglu: „Öll þessi panik fór af stað vegna skrifa minna á Facebook um sjúkar hugrenningar mínar undanfarna mánuði til Katrínar Jakobsdóttur, skrifa sem þó hjálpuðu mér úr þeirri sjálfheldu og hugarvíli sem ég var kominn í.“

Bjarni kveðst hafa nýtt Facebook til að ná jafnvægi á svipaðan hátt og alkóhólisti nýtir sér AA fundi, með því að tjá sig um vanlíðan sína.

„Ég var að hjálpa sjálfum mér .Ég var kominn í sjálfheldu og hugarvíl og þurfti til að hjálpa mér. Ég kunni aðferðina. Ég vissi hvernig ég bjargaði mér. Hvernig bjargaði ég mér frá dópi og brennivíni. Ég fór í pontu og talaði um vanda minn. Þetta er það sama. Ég tjáði mig um líðan mína til að losna við hana. Ég áreitti Katrínu aldrei og ég ber virðingu fyrir þessari konu. Ég myndi frekar vilja deyja en að gera Katrínu einhvern miska,“ segir Bjarni og bætir við

 „Það var ekkert ógnandi í neinum af þessum skrifum en það er greinilegt að lögreglan liggur yfir skrifum mínum.“