Litla fréttin varð að viðamiklu stórmáli

Sjómaðurinn sem hvarf og öll sú krúttlega dramatík með nágrannanum Hjörleifi Guttormssyni og mígleku borgarkerfi í aðalhlutverki er dæmi um litla frétt sem varð að viðamiklu og lærdómsríku stórmáli í íslenskum fjölmiðlum.

Þetta er mat þeirra Jóns Kaldal og Jóns Agnars Ólasonar í stórkemmtilegum og fjörlegum Ritstjóraþætti kvöldsins þaar sem ekki einasta er fjallað um stóra sjómannshvarfið heldur hrakningar Íslandsbanka í samnefndu maraþoni helgarinnar og raunir sjálfstæðismanna í gamla höfuðvíginu í Reykjavík, sem hefur verið svo til leiðtogalaust frá því Davíð Oddsson fór þar með himinskautum og náði flokknum í 60 prósenta fylgi þegar mest var fyrir næstum 30 árum.

Umræðan um það hvort laxeldismistök Norðmanna séu að endurtaka sig hér á landi fær sitt pláss í seinni hluta þáttarins, svo og dramatíkin sem nú ríkir í réttarsalnum í Hafnarfirði, en Jónarnir eru sammála um mikilvægi þess að það mál fái lúkingu, íslensku þjóðinni og þeirri grænlenslu ekki síður til einhvers hugarléttis í þessu þungbæra og ömurlega sakamáli.

Svo er Trumpast aðeins í lokin - og spurt í ljósi trúðsláta þessa truflaða forseta; af hverju eru samt sem áður tugir milljóna manna svona hrifnir af karlinum?

Ritsjórarnir byrja klukkan 21:00 í kvöld.