Linda p: „þú ættir að skammast þín. ég ætla að láta þig gjalda fyrir“

Linda Pétursdóttir fegurðardrottning hefur undanfarið staðið í deilum við fyrrverandi leigjanda sinn en hún leigði honum hluta úr bílskúr á 115 þúsund krónur á mánuði.

Leigjandinn Ali Taha segir í viðtali í nýjasta tölublaði DV að við upphaf leigusamnings hafi hann greint Lindu frá því að hann vildi þinglýsa samningnum til þess að sækja um húsaleigubætur. Því hafi Linda lofað en ítrekað brotið.

„Það voru tvö herbergi í bílskúrnum og þegar ég skrifaði undir var mér sagt að eftir þrjá mánuði þá fengi ég líka hitt herbergið, því var lofað og gekk ég til samninga út frá því,“ segir Ali í samtali við DV.

Slæm loftgæði í íbúðinni

Í júní á þessu ári greindi Ali Lindu munnlega frá því að hann ætlaði að finna sér hentugra rými meðal annars vegna slæms loftgæðis í íbúðinni. Á þessum tíma var Ali búinn að komast að því að líklega fengi hann samningnum aldrei þinglýst og ítrekaði hann áætlun sína í tölvupósti þann 24. Júní.

Þá greinir DV frá því að í ágúst hafi Ali handleggsbrotið sig illa í vinnuslysi og að um miðjan september hafi Ali látið Lindu vita af því í gegnum Facebook að hann hefði fundið sér nýtt húsnæði sem hann ætlaði sér að flytja í 1. október.

Að sögn Ali brást Linda í upphafi vel með áætlunum Alis um að yfirgefa húsnæðið en hún hafi þó greint honum frá því að hann þyrfti annað hvort að segja upp með þriggja mánaða fyrirvara eða finna nýja leigjendur. Segir hann að vegna lélegra aðstæðna hafi honum ekki tekist að fá annað fólk til þess að leigja rýmið út.

Hótaði lögfræðingi fengi hún ekki greitt

Þegar Ali greindi Lindu frá því að hann væri fluttur úr bílskúrnum og bað hana um tryggingu sína segir hann Lindu hins vegar hafa brugðist illa við. Hún hafi sent honum myndir, sagt íbúðina illa þrifna og að hann ætti eftir að greiða leigu fyrir október.

Linda sendi Ali skilaboð þar sem hún gaf honum 24 klukkustundir til þess að þrífa íbúðina og greiða henni. Ef ekki myndi hún lögsækja hann.

„Eldavélin er ónýt. Þú ættir að skammast þín. Ég ætla að láta þig gjalda fyrir samkvæmt lögmætum skriflegum samningnum. Ég mun ekki tala meira við þig. Lögmaðurinn minn tekur yfir málið eftir 24 klukkustundir,“ sagði Linda meðal annars í skilaboðum til Alis sem DV hefur undir höndunum.

Þá viðurkenndi Ali í viðtali sínu við DV að þrif á eigninni hafi ekki verið góð en hann hafi átt erfitt með þau vegna handleggsbrotsins.

Í kjölfar alls hafi Ali rætt við blaðamann DV og sýndi hann honum samninginn. Eftirgrennslan blaðamanns leiddi svo til þess að í ljós kom að samningurinn sjálfur er að öllum líkindum ekki löglegur. Linda hefur ekki verið skráður eigandi eignarinnar síðan árið 2015 en þá seldi hún eignina til fransks ríkisborgara fyrir 48 milljónir króna. Linda er því hvorki eigandi né er hún titluð sem umboðsmaður eiganda.

Kaupandi eignarinnar er samkvæmt fasteignaskrá, Mohammad Azab sem er egypskur krabbameinslæknir sem starfar í Ameríku. Í mars á þessu ári greindi Linda frá því í viðtali Loga Bergmann að barnsfaðir hennar væri einmitt egypskur krabbameinslæknir og vísindamaður sem væri búsettur í Bandaríkjunum. Linda hefur aldrei nafngreint barnsföður sinn en dóttir hennar, Ísabella ber eftirnafnið Azab. Það verður því að teljast líklegt að kaupandi eignarinnar sé barnsfaðir hennar. Samkvæmt heimildum DV er lögheimili mæðgnanna á umræddri eign en þær eru þó búsettar erlendis.

„Ég held að hún hafi ekki verið að gefa leiguna upp, eða ekki viljað að yfirvöld vissu að hún væri að leigja út bílskúrinn því ég efast um að það sé löglegt að leigja svona út sem íbúðarhúsnæði,“ segir Ali.

Linda hefur lokað á öll samskipti við Ali og hefur hann ákveðið að kæra til þess að fá tryggingu sína til baka. DV náði ekki í Lindu við vinnslu fréttarinnar.

Nánar má lesa um málið á DV.