Segja bjarna búinn að vera

Skoðanirnar skortir ekki í ansi fjörlegum Ritstjóraþætti kvöldsins þar sem gömlu brýnin Páll Baldvin Baldvinsson og Reynir Traustason, alvanir fjölmiðlamenn og rithöfundar, leiða saman hesta sína undir handleiðslu Sigmundar Ernis.

Lögbann stjórnvalda á umfjöllun Stundarinnar um fjármál forsætisráðherra ber auðvitað hæst í samtali þeirra, enda ein af lykilfréttunum í aðdraganda alþingiskosninganna sem fram fara eftir tíu daga, en fjölmiðlamenn og félag þeirra hefur fordæmt gerninginn og telja hann troða á tjáningarfrelsinu sem eigi undir högg að sækja hér á landi, enda fáheyrt að valdsmenn æði inn á ritstjórnir í lýðfrjálsum ríkjum til að stöðva fréttaflutning - og fái sínu framgengt án þess að viðkomandi miðill fái þar að halda uppi nokkrum vörnum. Hér er auðvitað tekist á um það hvort rétturinn til birtingar og upplýsingar séu skrefi framar þörfinni á leynd og yfirhylmingu.

Reynir og þó Páll Baldvin sérstaklega fara afar hörðum orðum um hlut Bjarna Benediktssonar í atburðarás síðustu dægra - og gengur Páll Baldvin svo langt að segja flokkinn verða að losa sig við mann sem sé honum ekki lengur samboðinn; hann sé búinn að vera í pólitík og það sé öllum augljóst nema kannski allra harðasta kjarna flokksins sem enn klappar fyrir honum á mannamótum.   

Rætt verður einnig um nýjustu vendingar í pólitíkinni í aðdraganda kosninganna, svo sem meint rasísk ummæli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem þykja vera sett fram á viðkvæmum tíma fyrir flokkinn, en að þeirri umræðu lokinni verður svipast frekar um í hinu pólitíska landslagi og spurt hvort það hafi ekki akkúrat verið rétt í tilviki Viðreisnar að skipta um hest í miðri á.

Loks gleyma þeir félagar ekki að tala um áhrifaríkasta fréttamál seinni missera, uppreisn kvenna - og karla - gegn kynferðislegum ofbeldisverkum ógeðismanna sem hafa þar skákað í skjóli skammarinnar alltof, alltof lengi.

Ritstjórarnir byrja klukkan 21:00 í kvöld.