Leita að jóni þresti þar til hann finnst

Leit stendur enn yfir að Jóni Þresti Jónssyni í Dyflinni, sem hefur ekki sést síðan um 11 leytið á laugardeginum 9. febrúar í Whitehall úthverfi borgarinnar. Tíu ættingjar Jóns Þrastar eru komnir til Írlands til að aðstoða við leitina. Þau hófu skipulega leit með aðstoð sjálfboðaliða í samráði við írsku lögregluna í gærmorgun og hyggjast leita þar til hann finnst að sögn bróður Jóns Þrastar. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld.

Lögreglunni á Írlandi tókst að rekja hluta slóðar Jóns Þrastar með aðstoð öryggismyndavéla og hefur einnig ráðist í viðamikla leit úr lofti og með aðstoð leitarhunda. Sú leit hefur þó lítinn árangur borið.

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir í samtali við fréttir Stöðvar 2 að tilkynning sem ættingjarnir sendu á fjölmiðla í Írlandi muni vonandi skila sér í einhverjum sjálfboðaliðum frá og með deginum í dag þar sem tíminn sé gífurlega mikilvægur í málum sem þessum.

Hann segir Íslendinga sömuleiðis velkomna að koma og hjálpa til við leitina: „Ef að fólk vill koma og hjálpa frá Íslandi þá er það auðvitað sjálfsagt mál og við tökum því fagnandi. Það er allt á góðri leið og hérna vinnum við saman frá morgni til kvölds. Vonandi skilar það einhverju sem fyrst og við erum ekkert á leiðinni heim fyrr en við finnum hann bróður okkar.“