Leikmaður kr: „það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum”

Björgvin Stefánsson, leikmaður KR í knattspyrnu, viðhafði rasísk ummæli þegar hann lýsti leik Hauka og Þróttar í knattspyrnu á YouTube rás Hauka í gær. Björgvin, sem baðst skömmu síðar afsökunar, gæti átt yfir höfði sér fimm leikja bann.

„Þetta er það sem ég er alltaf að segja, það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin um Archange Nkumu, enskan leikmann Þróttar sem er dökkur á hörund, eftir að Nkumu hafði brotið af sér í leiknum.

Björgvin baðst afsökunar á þessum ummælum sínum og sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Í ljósi umræðu sem skapaðist í kjölfar ummæla sem ég lét falla í beinni útsendingu á HaukarTV, vil ég biðja alla afsökunar og undirstrika að ummælin voru vanhugsuð og söðg í hugsunarleysi. Þau lýsa engan veginn afstöðu minni í garð þeirra sem eru dökkir á hörund frekar en annarra minnihlutahópa. Ég gerðist sekur um hrapallegt dómgreindarleysi og biðst innilegrar afsökunar á þessum heimskulegu ummælum mínum.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í samtali við 433.is að hún sé að safna gögnum um málið og að hún muni svo væntanlega vísa því til aganefndar sambandsins. „Eins og staðan er núna erum við að safna gögnum, knattspyrnan fordæmir alla mismunun,\" sagði hún.

Ef málinu verður vísað til aganefndar sambandsins mun Björgvin væntanlega fá fimm leikja bann.

Í agareglum KSÍ segir: 

„Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki og banni frá viðkomandi leikvelli. Jafnframt skal félag viðkomandi sæta sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000. Ef sá brotlegi er forsvarsmaður liðs skal sekt félags nema að lágmarki kr. 150.000.\" 

Knattspyrnuhreyfingin harmar ummælin

Viðbrögðin innan knattspyrnuhreyfingarinnar hafa ekki látið á sér standa.

Knattspyrnudeild KR harmar ummælin:

Knattspyrnudeild Hauka tekur í sama streng:

Stjórn knattspyrnudeildar Hauka harmar ummæli Björgvins@Fotboltinet pic.twitter.com/5qsH39lRKx

— Haukar Fótbolti (@FCHaukar) May 23, 2019

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, hafði þetta að segja:

Við viljum ekki sjá fordóma í fótboltanum frekar en í samfélaginu öllu. Fótbolti gengur út á samvinnu, liðsheild, gleði og virðingu. Við berjumst gegn fordómum með fræðslu og kærleik. #Fotboltinet #fyririsland

— Guðni Bergsson (@gudnibergs) May 24, 2019