Landsliðið verðskuldar áhrifamikinn erlendan þjálfara

Eftir að Heimir Hallgrímsson lýsti því yfir að hann væri hættur með landslið Íslands, hafa menn velt því fyrir sér hver geti tekið við kyndlinum og leitt liðið áfram til afreka og góðra verka. KSÍ stendur frammi fyrir vandasömu verkefni því ekkert má fara úrskeiðis við val á næsta landsliðsþjálfara. Árangur Heimis og Lars er slíkur að landsmenn gera kröfur til áframhaldandi velgengni. Þá eiga leikmenn landsliðsins ekkert annað skilið en það besta.

 

Einhverjir hafa gerst þjóðernilsegir og talað um að við ættum að velja Íslending til starfsins. Því miður er enginn nógu stór til þess að taka við af Heimi. Hann er sá eini sem sátt getur tekist um. Aðrir eru númeri of litlir. Landslið Íslands er komið á þann stað eftir EM 2016 og HM 2018 að ekkert nema það besta er nógu gott. Leikmenn liðsins eru flestir atvinnumenn, þar af margir í ensku úrvalsdeildinni. Það er ekki hægt að bjóða þeim upp á einhverja tilraunastarfsemi með þjálfara sem eru ekki líklegir til að geta notið virðingar og trúnaðar leikmanna. Þeir verða að trúa því að landsliðsþjálfari komi með eitthvað mikilvægt að borðinu og tryggi áframhaldandi velgengni liðsins.

 

Nefnd hafa verið nöfn íslenskra manna sem eru svo sem ágætir til þess að þjálfa lið sem eru um miðja deild í íslensku Pepsídeildinni. Þar er um að ræða menn sem hafa nær undantekningarlaust verið reknir frá erlendum félögum sem þeir hafa þjálfað. Ekki er viðlit að bjóða íslenska karlalandsliðinu upp á slíkt. Um það getur ekki tekist samstaða. Það er ekki boðlegt.

 

Guðni Bergsson, formaður KSÍ var leikmaður og fyrirliði Bolton á sínum tíma. Sam Allardyce var þá þjálfari liðsins. Hann hefur mikið álit á Guðna og er beinlínis vinur hans. Því ekki að nýta þau góða tengsl og fá stóra Sam til verksins. Hann gæti viljað leggja gömlum vini sínum lið og taka sjálfur þátt í því skemmtilega æfintýri sem íslenskur fótbolti er og hefur verið. Peningar eru ekki allt hjá þeim sem eiga nóg. Eins mætti skoða möguleika á að ráða David Moyse sem hefur Íslandstengsl eða Norðmanninn Ole Gunnar Solskær sem gerði garðin frægan hjá MU og hefur verið að feta sig inn á braut þjálfunar.