Landbúnaðurinn heldur verðinu háu

Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónus var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi hann verðkönnun á matvöru sem ASÍ lét framkvæma á dögunum og sagði landbúnað hérlendis vera þess valdandi að verðlag haldist hátt.

„Hún situr aðeins í manni þessi verðkönnun sem ASÍ var að birta. Ég er reyndar búinn að nefna það áður að samsetning hennar er þannig að það hefði mátt segja að landbúnaðarvörur væru dýrari á Íslandi en annars staðar. Það er bara „fakta,““ segir Guðmundur.

Aðspurður um hvort landbúnaðurinn sé að hífa upp verðlag segir hann: „Í rauninni er meiri munur. Ef við tökum bara vörur frá Mjólkursamsölunni sem dæmi. Inni í okkar sköttum eru líka gjöld. Mjólkin er niðurgreidd. Við erum bæði að borga hátt verð í búðinni og svo erum við líka að borga þetta með sköttunum okkar.“ Mjólkin sé því dýrari en hún er.

Guðmundur segir tolla íþyngjandi þegar kemur að verðlagi á matvöru og nefnir sem dæmi ódýrustu kjúklingabringurnar sem Bónus býður upp, danskar kjúklingabringur frá Euroshopper á 1667 krónur kílóið. Þar af sé um 700 króna tollur. „Ef við þyrftum ekki að borga þennan toll gætum við selt þessar bringur á innan við þúsund kall kílóið eins og í nágrannalöndunum.“ Flutningskostnaður vegi einnig þungt.

Aðspurður um hvað þyrfti að laga sérstaklega til þess að koma vöruverði niður segir Guðmundur: „Það er bara þessi innflutningsvernd. Þetta er bara grímulaus hagsmunagæsla.“