Ksí tekur yfir vörumerkið „húh“

Knattspyrnusamband Íslands og íþróttafræðingurinn Gunnar Þór Andrésson hafa komist að samkomulagi um að KSÍ taki yfir vörumerkjaskráningu á „húh“-inu. Þetta kemur fram í fréttabréfi sem KSÍ sendi frá sér. Gunnar hafði samband við KSÍ að fyrra bragði og óskaði eftir að sambandið tæki yfir skráninguna án greiðslu. fotbolti.net greindi frá þessu hér.

 

Þar segir:

Það vakti nokkra athygli þegar Hugleikur Dagsson upplýsti á Facebook-síðu sinni í mars að honum hefði verið gert að hætta framleiðslu á bol sem hann teiknaði eftir Evrópukeppnina í Frakklandi.  Ástæðan var sú að Einkaleyfastofa hafði komist að þeirri niðurstöðu að orðin „hú“ og „húh“ væru of lík en íþróttafræðingurinn Gunnar Þór Andrésson hafði eignast einkarétt á síðara orðinu.

Gunnar sendi síðan fréttastofu RÚV yfirlýsingu þar sem hann sagðist sjá eftir því að hafa lagt af stað í þessa vegferð í ljósi þeirrar gagnrýni sem hann hefði fengið. Hann hefði orðið fyrir miklu áreiti og fengið mörg andstyggileg skilaboð. „Mér hefur verið hótað, ég er kallaður öllum illum nöfnum og einhverjir hafa séð ástæðu til þess að pósta heimilisfangi mínu og símanúmeri,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Gunnars.

KSÍ blandaði sér í málið og sóttist eftir því að vörumerkið yrði gert ógilt en hefur nú komist að samkomulagi við Gunnar um að taka yfir vörumerkjaskráninguna án greiðslu. „KSÍ fagnar þessum málalokum og þakkar Gunnari fyrir að hafa leitt þetta mál til lykta á farsælan hátt.\"