Krefjast nýrrar atkvæðagreiðslu um brexit

Stuðningsmenn þess að Bretar fái að greiða aftur atkvæði um hvort landið yfirgefi Evrópusambandið eða ekki ganga nú um götur Lundúna til að leggja áherslu á kröfur sínar. Gangan hófst við Hyde Park og leið hennar liggur að þinghúsinu. Rúmlega fjórar milljónir hafa lagt nafn sitt við undirskriftasöfnun á vefnum um að hætt verði við útgöngu Breta úr sambandinu.
 

Skipuleggjendur göngunnar vonast eftir því að hundruð þúsunda taki þátt. Við upphaf göngunnar sögðu BBC og Daily Mail að tugir þúsunda tækju þátt í henni. Fjöldafundur verður haldinn við þinghúsið þegar göngumenn koma þangað. Nicola Sturgeon, leiðtogi skosku heimastjórnarinnar, Sadiq Khan, borgarstjóri í Lundúnum, og Tom Watson, varaleiðtogi Verkamannaflokksins, eru meðal ræðumanna. Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, er hins vegar víðsfjarri, eins og Theresa May forsætisráðherra. Þar er þó meðal ræðumanna Justine Greening, fyrrverandi ráðherra úr röðum Íhaldsmanna. Fólk hefur streymt til höfuðborgarinnar víða að til að taka þátt í göngunni, samkvæmt breskum fjölmiðlum. 

Nánar á

http://www.ruv.is/frett/krefjast-nyrrar-atkvaedagreidslu-um-brexit