Kolbrún segir rasistum til syndanna: fólk sem hatar, öfgaöfl og kvenfyrirlitning

„Við lifum á tímum þar sem öfgasinnuð öfl sækja stöðugt á með tilheyrandi hræðsluáróðri, útlendingaandúð og kvenfyrirlitningu. [...]Þetta fólk hatast sérstaklega við múslima og vill jafnvel meina þeim að iðka trú sína hér á landi. Hér eru líka einstaklingar sem vilja svipta konur sjálfsákvörðunarrétti til þungunarrofs, en sá réttur er grunnur að kvenfrelsi.“

Þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á Fréttablaðinu í pistli sem birtur er vef blaðsins. Þar segir Kolbrún þeim til syndanna sem hafa gagnrýnt að Aldís Amah Hamilton hafi flutt ljóð Bubba Morthens á Austurvelli á 17. Júní sem fjallkonan en þrátt fyrir að Aldís sé fædd og uppalin hér á landi hafa íslenskir rasistar fundið að því að hún sé dökk á hörund og faðir hennar sé frá Bandaríkjunum og því ekki rétt að hún skildi bregða sér í hlutverk fjallkonunnar, fyrst kvenna af erlendum uppruna. Þá var Jón Magnússon fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins ósáttur við boðskapinn í ljóði Bubba. Í frétt á Hringbraut var haft eftir Jóni Magnússyni: Það hvarflaði að mér þegar ég hlustaði á fjallkonuna og forsætisráðherra á þjóðhátíðardaginn að boðskapurinn væri: „Nú ber að skipta um þjóð í landinu, þar sem þessi hefur í engu dugað í 1000 ár og taka upp fjölmenningu í stað þjóðlegrar menningar.“

Kolbrún fjallar um málið í Fréttablaðinu í dag og segir að mikilvægt sé að allir sem vilja búa í kærleiksríku samfélagi þar sem jafnrétti og víðsýni eru við völd taki sér stöðu í þessari baráttu gegn öfgaöflum, en sitji ekki sinnulausir hjá. Kolbrún segir:

„Einmitt vegna þessa mikilvægis var gleðilegt að heyra fjallkonuna flytja á 17. júní ljóð Bubba Morthens, Landið flokkar ekki fólk, sem er hylling til fjölmenningarsamfélagsins.“

Þá segir Kolbrún í lok pistilsins: „Boðskapur um skilning og samvinnu manna á meðal, hvaðan sem þeir koma, á ekki greiðan aðgang að hjörtum allra Íslendinga. Um múrana sem menn skapa með eigin fordómum og tortryggni segir Bubbi í ljóðinu: „rammgerðastir eru þeir sem/reistir eru í höfðum manna“. Hvað er þá til ráða? Svar Bubba er: „Rífum þá niður og göngum inn í víðáttu frelsisins og fögnum lífinu.“

Já, það dugar!“