Kirkjan láti í sér heyra

Kristján Björnsson, nýr vígslubiskup í Skálholti, boðar að þjóðkirkjan láti rödd sína heyrast í álitaefnum dagsins. Þetta segir í Morgunblaðinu í dag þar sem Kristján er í viðtali og tiltekur hann sérstaklega umhverfis- og húsnæðismál.

 Kristján segir að þótt íslenska þjóðkirkjan reki ekki sjúkrahús, dvalarheimili fyrir aldraða eða búðir fyrir flóttafólk eins og kirkjur í Evrópu þurfi að taka undir kröfur um réttlæti og ábyrgð.

Kristján hefur verið sóknarprestur í Húnaþingi vestra, Vestmannaeyjum og Eyrarbakkaprestakalli. Hefur verið ritstjóri Kirkjuritsins, setið kirkjuþing og verið í kirkjuráði og formaður Prestafélags Íslands.