Kemur ævintýri aftur saman í ár?

Þátturinn Lífið er lag er á dagskrá Hringbrautar klukkan 20:30 í kvöld og er þetta sjötti þátturinn af 12 á þessu vori. Þar er fjallað um stöðu, hagsmuni og framtíðarsýn eldri borgara á Íslandi og eru þættirnir m.a. unnir í samstarfi við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrennis. 

Í þættinum í kvöld verður spjallað við Dr. Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Landlæknisembættinu um hamingjustig eldri borgara, kíkt á páskaeggjaframleiðslu hjá Góu og einnig rætt við Sigríði Lillý Baldursdóttur forstjóra TR um fjölbreytta starfsemi stofnunarinnar og nýtt húsnæði sem tekið var í notkun á dögunum. 

+67 hornið er að vanda á sínum stað og að þessu sinni verður stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson gestur Sigurðar K. Kolbeinssonar þáttastjórnanda. Þar svarar hann því m.a. hvort landsmenn megi eiga von á því að hljómsveitin Ævintýri komi saman á ný, en sveitin kom upphaflega saman árið 1971. 

Næsti þáttur á eftir þætti kvöldsins verður á dagskrá þriðjudaginn 23. apríl en hlé verður gert á sýningum í Dymbilvikunni.