Katrín vill ekki mynda fimm flokka stjórn

Meðal alþingismanna hefur verið rætt af alvöru um myndun fimm flokka ríkisstjórnar Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar.

Þær bollaleggingar hafa hingað til strandað á einu – andstöðu Katrínar Jakobsdóttur.

Athygli margra vakti þegar Guðni Th. Jóhannesson hafði sérstaklega orð á því, að þingmenn gætu enn og alveg fram að kosningum myndað ríkisstjórn enda situr þing fram að kjördegi 28. október.

Ekki hefur heldur vantað að þessi möguleiki hafi verið ræddur. Síðast í gær lagði formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, það til við Katrínu að hún skoðaði slíka stjórnarmyndun alvarlega.

Yrði hún að veruleika má telja víst að fyrirhugað þingrof yrði afturkallað og ekki kæmi því til kosninga.

Katrín hefur hins vegar ekki ljáð máls á þessu og segir of seint að mynda slíka ríkisstjórn.

Katrín reyndi fyrir sér með þetta stjórnarmynstur í fyrra, en tókst ekki að koma því saman. Staðan er hins vegar gerbreytt núna og þingmenn hinna flokkanna segja stjórnarmyndun vel mögulega, ef Katrín léti af andstöðu sinni.

Tortryggni ríkir á milli Katrínar og Birgittu Jónsdóttur þingmanns Pírata, en þar á bæ er fólk reiðubúið að verja slíka ríkisstjórn falli jafnvel þótt flokkurinn tæki ekki sæti í henni. Það væri þá með svipuðum skilyrðum og rædd voru eftir síðustu kosningar – að Píratar fengju að stýra stjórnarskrármálinu í gegnum þingið og fengju einnig embætti þingforseta í sinn hlut.

En þetta vill Katrín Jakobsdóttir sem sagt ekki. Innan annarra flokka telja margir að hún vilji frekar ganga til kosninga og innleysa fylgið sem Vinstri græn mælast nú með í skoðanakönnunum.