Katrín jakobsdóttir hljóp á sig

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra hljóp á sig um nýliðna helgi þegar hún sagði dóm Hæstaréttar í máli Seðlabankans og Samherja ekki hafa áhrif á stöðu Más Guðmundssonar, Seðlabankastjóra. Hins vegar gerði hún hárrétt í því að bakka og taka sér nýja stöðu í málinu strax í gærdag.

Þetta er mat þeirra Þorbjörns Þórðarsonar, fréttamanns á Stöð 2 og Reynis Traustasonar, blaðamanns á Stundinni sem eru gestir Sigmundar Ernis í Ritstjórunum í kvöld klukkan 21 þar sem þeir fara yfir aðkomu, sumir segja aðför bankans vegna meintra gjaldeyrissvika Samherja sem fyrirtækið hefur nú verið hreinsað af á æðsta dómsstigi. Reynir segist ekki þekkja Má nema að vandaðri stjórnsýslu, en ef til vill hafi hann farið fram úr sér í þessu máli. Þorbjörn segir vanda Más og bankans felast í þeirri spurningu af hverju mál hans á hendur Samherja og síðar starfsmönnum sjávarútvegsfyrirtækisins hafi ekki verið stöðvað þegar ekkert nýtt lá fyrir í málinu. Það sé í besta falli umhugsunarvert af hverju bankinn hafi lagt stjórvaldssekt á fyrirtækið eftir að hafa verið gerður ítrekað afturreka með ávirðingar sínar á hendur Samherja, jafnt frá Sérstökum saksóknara og Skattrannsóknarstjóra. Það þurfi bankaráðið að skýra með trúverðugum hætti, eins og það hefur nú vcerið krafið um af hálfu forsætisráðherra.

En þeir eru ekki sammála um allt, svo sem stöðu Bjarna Benediktssonar sem Reynir segir að eigi enn eftir gera hreint fyrir sínum dyrum, en Þorbjörn segir síðari tíma skrif Stundarinnar um Bjarna ekki hafa bætt neinu við það sem menn vissu um viðskiptagjörðir hans fyrir hrun, gjörðir sem Katrín jakobsdóttir hefur lagt blessun yfir eins og rætt er líka um í þætti kvöldsins.

Svo slíðra þeir sverðin þegar þeir ræða innistæðulausan æsing eldri sjálfstæðis- og framsóknarmanna vegna þriðja orkupakka ESB sem sé hiklaust notað, þvert á röksemdir í málinu, til að gera Grýlu úr Evrópusambandinu sem allt ætli að éta á Ísalandi.