Katrín í 17. sæti yfir launahæstu þjóðarleiðtoga heims

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er í 17. sæti yfir tuttugu launahæstu þjóðarleiðtoga heims samkvæmt lista bandaríska dagblaðsins USA Today, sem var birtur á páskadag. Hún er ein af fjórum konum á listanum. Listinn miðar við þá einstaklinga sem teljast yfir framkvæmdavaldi eða ríkisstjórn hvers lands, frekar en þjóðhöfðingja, og því er Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, sem er með hærri laun en Katrín, ekki á listanum.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Í úttekt USA Today  er miðað við laun hvers þjóðarleiðtoga á síðasta ári og þar segir að árslaun Katrínar hafi verið 242.619 Bandaríkjadalir, miðað við gengi krónunnar í apríl 2018.

Í langefsta sæti er Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Singapúr, sem var með 1.610.000 Bandaríkjadali í árslaun á síðasta ári. Í fjórða sæti er Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, með um 400.000 Bandaríkjadali í árslaun, en í úttektinni er tekið fram að hann hafi látið laun sín renna til góðgerðarmála.

Launahæsta konan á listanum er Carrie Lam, framkvæmdastjóri Hong Kong, sem situr í öðru sæti með 568.400 Bandaríkjadali í árslaun. Aðrar konur sem komast á listann eru Angela Merkel Þýskalandskanslari, en hún er í sjötta sæti með 369.727 Bandaríkjadali í árslaun, og Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, sem er í sjöunda sæti með 339.862 dali í árslaun.