Kalla eftir skýrslu ráðherra um nýtingu loðnustofnsins

Þingmenn Flokks fólksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar hafa lagt fram beiðni til Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra um skýrslu sem snýr að nýtingu og vistfræðilegri þýðingu loðnustofnsins frá 2000 til 2019. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er fyrsti flutningsmaður beiðninnar.

Haf­rann­­sókna­­stofn­un hefur sem kunnugt er ekki lagt til að afla­heim­ild­ir verði gefn­ar út fyr­ir loðnu á vertíðinni. Leit að loðnu við Íslandsmið hefur staðið yfir í meira en 100 daga og hefur ekki borið árangur. Áhrifa loðnubrestsins gætir víða og sjá fjöldi sveitarfélaga fram á gífurlegt tap.

Í tilkynningu frá Ingu segir: „Ástand loðnustofnsins er grafalvarlegt, bæði frá efnahagslegu og umhverfislegum sjónarmiðum. Afar mikilvægt er að þingið sem og þjóðin öll fái sem gleggstar upplýsingar um stöðu mála hvað varðar nýtingu og líffræðilega þætti sem tengjast loðnunni.“

Einnig kemur fram í tilkynningunni að samkvæmt þingskapalögum skal ráðherra ljúka skýrslugerðinni innan 10 vikna eftir að skýrslubeiðnin er samþykkt. Ef ráðherra eða skýrslubeiðendur, einn eða fleiri, óska þess skal skýrslan svo tekin til umræðu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerir þá grein fyrir henni.