Kálfarnir ekki bara smitvaldar í efstadal ii - sum barnanna komust aldrei í snertingu við dýrin

Níu börn smituðust af E.Coli bakteríunni eftir að hafa komið í heimsókn á Efstadal II. Þar er veitingahús og ísbúð, en þar er einnig framleiddur ís sem seldur er í ísbúðinni á staðnum. Við hliðina á ísbúðinni er svo fjós þar sem kálfar eru til sýnis fyrir gesti og gangandi. Þá geta börnin fengið að gefa kálfunum ís en einnig er mögulegt að horfa inn í fjósið úr ísbúðinni. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig E.Coli bakterían barst í börnin. Ekki komust öll börn í snertingu við kálfana.

Starfsmenn Landlæknisembættisins spurði foreldra barnanna sem höfðu smitast af E.Coli bakteríunni í Efstadal II hvort börnin hefðu eitthvað verið í kringum dýrin í fjósinu. Það vekur athygli að nokkrir foreldrar sögðu að börn þeirra hafi aldrei verið í kringum kálfana en fjósið er staðsett við hliðina á ísbúðinni, en skuldinni hefur að mestu verið skellt á skepnurnar. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hjá Landlæknisembættinu, við Hringbraut.

Í samtali við Hringbraut sagði Katrín Guðjónsdóttir fagsviðsstjóri neytendaverndar hjá Matvælastofnun að ekki hefði verið hægt að rannsaka allan ísinn þar sem hluti hans hafði klárast. Í einu sýni af fimm sem voru tekin 4. júlí úr ísnum fannst gen sem ýtti undir grun um að í sýninu væri hugsanlega E.coli bakteríu að finna. Var reynt að rækta bakteríuna og tókst það ekki. Þó svo að genið finnist í sýninu segir það ekkert til um hvort hafi verið í ísnum eða ekki.

Þriggja ára barn liggur enn á Barnaspítala Hringsins og segja foreldrar barnsins að ástand þess hafi verið alvarlegt. Það hafi fengið blóðflögur og blóðgjöf, verið svæft þrisvar og farið í ýmsar rannsóknir á undanförnum dögum. Barnið er tengt við kviðskilunarvél eftir þörfum, sem hreinsar á meðan nýru eru óvirk.

„Við vitum ekki hvernig líf þess verður í framtíðinni, hvort varanlegur skaði hljótist af. Þetta er eitthvað sem maður óskar engum,“ 

sagði annað foreldri barnsins í samtali við RÚV.

Þann 26. júní fór starfsmaður á vegum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands til að taka sýni vegna gruns um E.Coli smit í Efstadal II. Tók starfsmaðurinn 3 sýni úr ís og eitt sýni úr hamborgara á staðnum. Í samtali við Hringbraut segir Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, að ekki hafi verið tekið sýni af svæðinu þar sem ísinn er framleiddur, afgreiðsluborðinu þar sem ísinn er framreiddur, né af neinum tækjabúnaði sem notaður er við ísframleiðsluna. Þegar blaðamaður Hringbrautar spurði Sigrúnu af hverju það voru engin sýni tekin, hvorki af svæðinu þar sem ísinn er framleiddur né af tækjabúnaði svaraði hún:

„Það er framleiðandans að sjá um það. Framleiðandinn sér um innra eftirlit á sínum stað.“  

Tók framleiðandinn einhvern tímann sýni?

Já, hann er búinn að taka sýni.

Aðspurð hvort hún gæti greint frá niðurstöðunni sagði Sigrún að hún hefði ekki frekari tíma og mætti ekki greina frá hver niðurstaðan hefði verið.

Þann 29. júní smituðust svo sex börn af E.coli bakteríunni á Efstadal II, þremur dögum eftir að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafði gert sýnatöku á staðnum sem sýndu að enga E.coli bakteríu væri að finna í Efstadal. Þann 4. júlí voru tekin sýni úr saur í fjósinu hliðina á ísbúðinni.

Niðurstöður úr sýnitöku voru ljós þann 8. júlí síðastliðinn. Sýndu þær að E. Coli bakteríur væri að finna í saur kálfanna. Þann 4. júlí, sama dag og sýni var tekið úr saur á kálfunum, var ákveðið að loka ísbúðinni en hún hefur nú verið opnuð á ný.

Tímalína

26. júní – Starfsmaður á vegum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands tekur sýni vegna gruns um E.Coli smit í Efstadal II

- Tekin voru 3 sýni úr ís og eitt úr hamborgara.

- Ekki voru tekin sýni þar sem ísinn er framleiddur, afgreiðsluborðinu né af neinum tækjabúnaði sem notaður er við ísframleiðsluna.

- Ástæðan er að það er hlutverk framleiðanda.

29. júní – Sex börn smitast af E.coli bakteríunni á Efstadal II.

- Er þetta eftir að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafði gert sýnatöku og ekkert fundist.

- Börn hafa þurft að leggjast inn á spítala og ástand verið alvarlegt og nýru hætt að virka.

4. júlí – Sýni tekin úr saur þar sem kálfar dvelja og eru til sýnis og börn geta gefið þeim ís.

- Sama dag er tekin ákvörðun að loka ísbúðinni.

8. júlí – Staðfest að E. Coli bakteríur væri að finna í saur kálfanna.

- Gen finnst í ís og ýtir undir grun

9. júlí - Ísbúðin hefur nú verið opnuð á ný.