Kæra typpamyndir til lögreglu: „þetta er hrikalegt að sjá“

„Þetta er hrikalegt að sjá og vanvirðingin sem felst í þessu við náttúru Íslands er náttúrulega mikil, að því gefnu að maður gefi sér að gerendur átti sig á því hvað þeir eru að gera. Við lítum á þetta sem alvarleg náttúruspjöll sem þarna eru unnin í móbergsklöpp í Helgafelli við Hafnarfjörð.“

Þetta sagði Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Á dögunum uppgötvuðust fangamörk og typpamyndir sem óþekktir einstaklingar voru búnir að rista í móbergsklöppina í Helgafelli, sem hann segir augljóst að séu nýleg.

Björn sagði að Umhverfisstofnun líti málið alvarlegum augum enda skýrt brot á náttúruverndarlögum. Verksummerkin geti tekið veður og vinda langan tíma að afmá, jafnvel ár eða áratugi. Hann sagði í morgun að Umhverfisstofnun hyggðist tilkynna náttúruspjöllin til yfirvalda og samkvæmt tilkynningu frá stofnuninni hefur nú verið ákveðið að kæra náttúruspjöllin til lögreglu.

Björn benti í viðtalinu á að gestabækur sé gjarnan að finna á toppi fjalla, þar sem fólk geti ritað nöfn sín, og að ein slík sé á Helgafelli. „En þetta er ekki alveg nógu gott að rita fangamörk og reðurtákn og annað í bergið.“

Í tilkynningunni frá Umhverfisstofnun er imprað á þessu:

„Náttúruspjöll eru lögbrot sem sæta viðurlögum og við hvetjum ferðalanga til að halda vöku sinni og tilkynna brot. Hjálpumst að við að halda náttúru okkar óspilltri. Ef það er ekki gestabók á fjallstindinum sem þú toppaðir, vinsamlegast slepptu því að rita nafnið þitt.“

María Elíasdóttir deildi á Facebook-síðu sinni fangamörkunum og reðurtáknunum sem búið er að rista í fjallið: