Jón steinar: „kunningjasamfélag þar sem hver klórar hvorum öðrum á bakinu er mjög sterkt á íslandi“

„Ég sat á fundi í ráðuneyti með embættismönnum um daginn og þá var þar ungur embættismaður. Á fundinum gafst mér tilefni til þess að spyrja hann: „Myndirðu ekki gera það sem við vorum að tala um ef ráðherra gæfi þér fyrirmæli um það?“ „Nei!“ „Nú?“ Ég bara hváði. „Nei ég er í vinnu hjá ráðuneytisstjóranum.“ Hann sagði þetta berum orðum við mig á fundinum. Ég verð nú að játa það að ég varð kjaftstopp því að þó að þetta sé nú svona þá er sjaldgæft að menn viðurkenni það berum orðum.“

Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, í viðtali við Sigmund Erni í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hann völd embættismanna á Íslandi, sem hann telur vera allt of mikil og skapi fyrir vikið lýðræðishalla.

Jón Steinar segir að ekkert sé hér gert til þess að breyta því að embættismenn hafi þessi miklu völd. „Það er meira að segja þannig að maður fær það stundum á tilfinninguna að stjórnmálamennirnir, það eru náttúrulega fyrst og fremst ráðherrarnir sem reynir á en það eru auðvitað líka Alþingismenn, að þeim finnist þetta ekkert svo mjög slæmt. Það er vegna þess að það er bara þægilegt. Ég held að margir taki þátt í stjórnmálum á Íslandi, ekki vegna þess að þeir hafi hugsjónir, sem þeir vilja hrinda í framkvæmd, einhverjar grunnhugmyndir, heldur bara vegna þess að þetta er svona þægileg sessa í samfélagi mannanna. Þeir eru komnir á einhvern stall og hafa náð einhverjum framavonum fram og þá er lang best að komast bara vel af. Þeir byrja yfirleitt á því að kanna starfsumhverfið, þá er bara verið athuga það hvar línurnar liggja í ráðuneytinu sem þeir ætla síðan að fara eftir.“

Samfélag gamalla skólafélaga

Aðspurður hvort að hættan af svokölluðu samfélagi gamalla skólafélaga sem ráði í embættismannakerfinu sé meiri hér á landi vegna smæðar okkar segir hann: „Það gæti verið að hún væri það. Ég held nú reyndar að þetta sé þekkt fyrirbæri líka hjá öðrum þjóðum. Það er margt öðruvísi á Íslandi heldur en annars staðar vegna fámennisins og vegna þess að við tengjumst miklu sterkar sem einstaklingar innbyrðis. Það eru til dæmis tengsl á milli manna sem aldrei geta valdið vanhæfi í dómsýslu eða annars staðar, sem eru samt miklu sterkari heldur en náin ættartengsl. Eins og gamlir skólabræður, það veldur engu vanhæfi þó menn séu það. Og þetta kunningjasamfélag þar sem hver klórar hvorum öðrum á bakinu, það er mjög sterkt á Íslandi.“

Jón Steinar nefnir dæmi af sjálfum sér. „Sjálfur tel ég að ég hafi þá hugsjón að bæta dómskerfið á Íslandi. Ég vil að það vinni eftir þeim reglum sem það á að vinna eftir. Þar hins vegar hafa átt sér stað átök sem snúast um það að dómararnir sem sitja fái að velja nýja menn inn í hópinn. Og hvaða menn ætli það séu? Það skyldu þó ekki vera gömlu skólabræðurnir eða vinirnir eða kunningjarnir, sem á alls ekki að vera. Þar eiga menn auðvitað, umfram annars staðar, að starfa alveg sjálfstætt eftir laganna reglum og þeirri hugsjón að þar eigi ekkert að geta komið upp á milli, eða raskað því.

„Sama er kannski að segja um stjórnarráðið og þá sem þar sitja, þeir eiga bara að framfylgja lögum en það eru samt ýmsar ákvarðanir sem þarf að taka sem eru ekki beinlínis alltaf lögbundnar,“ heldur hann áfram. „Ég vil bara leggja áherslu á það í þessu samhengi að ég tel að stjórnmálamennirnir beri mikla ábyrgð á þessu, vegna þess að stjórnmálamaður sem kemur inn í ráðuneytið og gerir embættismannaliðinu það strax ljóst að það er hann sem ræður hér en ekki þeir, að þeir munu auðvitað beygja sig fyrir því, vegna þess að ef til kastanna kemur þá er það auðvitað ráðherrann sem ræður ef hann vill ráða og sækist eftir því að gera það. Hann getur auðvitað sagt við embættismennina að ef þið gerið ekki það sem ég segi þá mun það koma niður á ykkur með einum eða öðrum hætti.“

Nánar er rætt við Jón Steinar í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.