Jón ásgeir: „skilnaðir eru erfiðir, hvað sem fólk segir“

Seinni hluti viðtals Sigmundar Ernis við Jón Ásgeir Jóhannesson í þættinum Mannamál verður sýndur í kvöld hér á Hringbraut klukkan 20:00. Þar opnar Jón Ásgeir sig um ýmsa persónulega atburði í lífi sínu. Jón Ásgeir hefur verið undir radarnum síðustu ár líkt og hann orðar það sjálfur í viðtalinu og veitir sjaldan stór viðtöl. Í fyrri þættinum fór Jón Ásgeir ítarlega í saumana á Baugsmálinu, átökin við Davíð og Sjálfstæðisflokkinn, fall Glitnis og hvaða áhrif allt þetta hafði á fjölskylduna. Í þættinum annað kvöld segir Jón Ásgeir frá skilnaði foreldra sinna og svo þegar hann skildi sjálfur við fyrri eiginkonu sína.

Sigmundur Ernir spurði: Foreldrar þínir, Ása og Jóhannes, þau skildu á sínum tíma. Hvernig tókst þú því?

„Ég tók því nú ekkert vel,“ svaraði Jón Ásgeir og bætti við: „En ég held að börn geri það aldrei, á hvaða aldri sem þau eru. En þetta var þeirra ákvörðun. Þau unnu samt saman lengi eftir það.“

Voru þau vinir?

„Þau voru vinir já,“ svaraði Jón Ásgeir.

Þrátt fyrir allt?

„Þrátt fyrir allt. Kannski ekki fyrstu árin en svo jafnaði það sig.“

Sjálfur skildirðu líka, hversu erfitt var það?

„Það er erfitt,“ svaraði Jón Ásgeir. „Ég held að skilnaðir séu erfiðir, hvað sem fólk segir.“

Var það vegna þess að þú tókst vinnuna fram yfir allt?

„Þessi fyrstu Bónusár var vinnutíminn, ja, þú fórst svona sjö, átta, eða vaknaðir sjö og varst kominn heim um tíu leytið,“ svaraði Jón Ásgeir sem í mörg ár vann langt fram á kvöld. „Það var svona venjulegur dagur og síðan varstu að vinna um helgar líka, sjá um bókhaldið, svona fyrstu árin.“

Eftir á að hyggja, fannst þér þú kannski missa af börnunum þínum?

„Já, það má alveg segja það. Það gerist,“ svaraði Jón Ásgeir.

Viðtalið við Jón Ásgeir er sýnt í kvöld klukkan 20:00