Íslenskir unglingar daprari en áður

„Depurð meðal íslenskra unglinga er meiri nú heldur en hún hefur verið. Við höfum aldrei séð jafn háar tölur eins og núna,“ segir Ársæll Arnarsson, prófessor og rannsóknarstjóri nýrrar rannsóknar á líðan unglinga á Íslandi, í samtali við RÚV.

Rannsókn á heilsu og lífskjörum unglinga er gerð í 44 Evrópulöndum á fjögurra ára fresti og var Ársæll rannsóknarstjóri íslensks hluta rannsóknarinnar. Hann bendir á að þróun á líðan unglinga hérlendis sé slæm, marktæk aukning sé á kvíða og depurð unglinga milli ára.

Um 39 prósent nemenda í 10. bekk fundu fyrir depurð vikulega eða oftar, í 6. bekk voru það 31 prósent nemenda og 30 prósent nemenda í 8. bekk. 18 prósent af nemendum í 10. bekk fundu fyrir depurð vikulega og rúmlega 21 prósent oftar en vikulega.

Fjöldi unglinga á í vandræðum með svefn. Þannig fundu 41 prósent nemenda í 6. bekk fyrir svefnörðugleikum vikulega eða oftar, um 34 prósent nemenda í 8. bekk og tæplega 38 prósent í 10. bekk.

Í samtalinu við RÚV segist Ársæll telja að svefnörðugleikar haldist í hendur við depurð, en bendir einnig á skjánotkun. „Það er auðvitað skjánotkun sem er nærtækt svar, vissulega hefur hún mikil áhrif, þau fara seinna að sofa. Þau eru æstari þegar þau fara að sofa vegna þess að þau hafa verið að spila leiki og svo framvegis. En það eru auðvitað aðrir þættir líka. Það er auðvitað mjög flókið að vera unglingur. Ástæðan er ekki bara skjátíminn, en við höfum áhyggjur af þessu,“ segir Ársæll.