Sigmundur davíð brást þingflokknum

Það voru núverandi og fyrrverandi ritstjórarnir Gunnar Smári Egilsson og Jón Sigurðsson sem mátua stjórnmálaástandið á Íslandi í fréttaskýringaþættinum Ritstjórunum á Hringbraut í gærkvöld.

Jón Sigurðsson, sem er að auki fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, svaraði fyrst í þættinum fyrir greinaskrif sín í Fréttablaðinu í gær þar sem hann nefndi til sjö atriði sem núverandi formaður flokksins ætti að hafa í huga þessi dægrin, en þar segir að það eitt \"að eiga fé á aflandsreikningi á leyndum stað erlendis er feluleikur, en ekki endilega lögbrot,\" og Jón kemst að þeirri niðurstöðu í svari sínu í þættinum að trúnaðarbresturinn milli Sigmundar Davíðs og þjóðarinnar sé enn til staðar, fjórum mánuðum eftir að hann hrökklaðist frá völdum, neyðarfundurinn í þingflokki flokksins fyrir helgi hafi verið haldinn í ljósi þess að þingmenn hans hafi áttað sig á að foringinn hefði ekki notað tímann sem þeir fengu honum til að bæta ráð sitt.

Þeir Jón og Gunnar Smári ræddu vanda Framsóknarflokksins í þaula og mögulegar lyktir innanflokksátakanna um komandi helgi, en aukinheldur vandræði annarra flokka sem eru litlu minni, en hægrimenn eru jú klofnir sem aldrei fyrr og vinstri vængurinn í molum og virðist ekki vera að ná vopnum sínum á meðan Píratar og þó einkum Viðreisn virðist sigla lygnan sjó. Í raun og sann megi segja að klofningurinn í íslenskri pólitík líkist einna helst bráðsmitandi faraldri nú um stundir.

Pólitíkin var sumsé í aðalhlutverki þáttarins í gærkvöld, en þátturinn er endursýndur í dag.