Íslendingar borða minna af rauðu kjöti - óttast áhrif á hlýnun jarðar

Yfir helmingur landsmanna kvaðst neyta mjólkurvara og hvíts kjöts oft eða alltaf sem hluta af sínu daglega mataræði. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá MMR. Tæplega einn af hverjum fimm kvaðst sjaldan eða aldrei neyta mjólkurvara eða rauðs kjöts og nærri fjórðungur landsmanna sagði fisk sjaldan eða aldrei vera hluta af sínu daglega mataræði.

Karlar (58%) reyndust líklegri en konur (39%) til að segja rautt kjöt oft eða alltaf vera hluta af daglegu mataræði sínu. Konur reyndust líklegri til að segja grænmetisfæði (43%), umhverfisvæn matvæli (33%), lífræn matvæli (27%) og veganfæði (10%) vera oft eða alltaf til staðar í daglegu mataræði sínu heldur en karlar.

Neysla fisks jókst með auknum aldri en svarendur á aldrinum 50-67 ára (46%) og 68 ára og eldri (59%) reyndust líklegri en yngri svarendur til að segjast borða fisk oft eða alltaf sem hluta af sínu daglega mataræði. Svarendur á aldrinum 18-29 ára (48%) reyndust hins vegar líklegri en aðrir svarendur til að segjast oft eða alltaf neyta grænmetisfæðis.

Stuðningsfólk Vinstri grænna var líklegast til að segja grænmetisfæði (47%), umhverfisvæn matvæli (39%), lífræn matvæli (35%) og veganfæði (19%) oft eða alltaf vera hluta af sínu daglega mataræði en stuðningsfólk Framsóknarflokksins reyndist líklegast til að segjast oft eða alltaf neyta rauðs kjöts (73%).

Neysla á rauðu kjöti fór minnkandi með auknum áhyggjum af hlýnun jarðar en 72% þeirra sem kváðust hafa mjög litlar áhyggjur sögðu rautt kjöt oft eða alltaf vera hluta af sínu daglega mataræði, samanborið við 39% þeirra sem kváðust hafa mjög miklar áhyggjur. Þá fór hlutfall þeirra sem kváðust neyta mjólkurvara og rauðs kjöts oft eða alltaf sem hluta af daglegu mataræði minnkandi með auknum breytingum á matarvenjum í þágu umhverfisins.