Inn­herja­svik með hlutabréf í icelandair

Héraðssaksóknari hefur ákært þrjá menn fyrir innherjasvik í viðskiptum með afleiður tengdar hlutabréfaverði í Icelandair. RÚV greinir frá þessu.
 
Einn þeirra var forstöðumaður leiðakerfisstjórnunar flugfélagsins. Hann var skilgreindur í hópi lykilstarfsmanna og skráður fruminnherji. Fyrirtæki í eigu eins þremenninganna hagnaðist um tæpar 25 milljónir á viðskiptum sem áttu sér stað í kringum afkomuviðvörun sem Icelandair sendi frá sér í febrúar á síðasta ári.
 

Fjármálaeftirlitið hóf á síðasta ári rannsókn á brotum starfsmanns Icelandair á lögum um verðbréfaviðskipti. Starfsmaðurinn var sendur í leyfi frá störfum en FME kærði síðan viðskiptin til embættis héraðssaksóknara. Hagnaðurinn af meintum brotum mannanna er talin hafa numið yfir fimmtíu milljónum.

Innherjasvik yfirmannsins hjá Icelandair og annars mannsins, sem nýverið var dæmdur í fangelsi fyrir peningaþvætti og rekstur á spilavíti, voru umfangsmest ef marka má ákæruna. Meðal gagna í málinu eru tölvupóstssamskipti milli þeirra þar sem þeir virðast hafa gert með sér samkomulag um að skipta með sér áhættu og þar með einnig hagnaðarvon.

Fyrsta brotið sem þeir eru ákærðir fyrir átti sér stað í október og nóvember fyrir þremur árum. Starfsmaður Icelandair á að hafa látið félaga sinn hafa innherjaupplýsingar um að gott uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2015 væri væntanlegt.  Vinurinn notaði þær upplýsingar til að láta fyrirtæki sitt kaupa tvær afleiður og nýtti þær síðan þegar upplýsingarnar komu fram og  hagnaðist félagið um rúmar 8,5 milljónir á viðskiptunum.

Mennirnir eru í ákærunni sagðir hafa leikið sama leik í júlí árið eftir. Yfirmaðurinn hjá Icelandair lét vin sinn hafa upplýsingar um uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung 2016 þar sem tilkynnt var að afkomuspá félagsins fyrir það ár hefði verið lækkuð. Hagnaðurinn af þessum viðskiptum nam rúmum 7,6 milljónum. 

Samkvæmt ákærunni höfðu mennirnir þó mest upp úr viðskiptum tengdum afkomuviðvörun sem Icelandair sendi frá sér í byrjun febrúar á síðasta ári. Þar var tilkynnt um aukna óvissu varðandi skammtímahorfur félagsins, breytingu á bókunarflæði til hins verra og að gert væri ráð fyrir verulegri lækkun á afkomu félagsins.

Samkvæmt ákærunni lét starfsmaður Icelandair vin sinn vita af þessu og hann lét fyrirtæki sitt innleysa hagnað af valréttarsamningi  sem byggði á verðþróun hlutabréfa í Icelandair. Hagnaðurinn af þessum viðskiptum nam, samkvæmt ákærunni, tæpum 25 milljónum. 

Sá er í ákærunni sagður hafa látið æskuvin sinn vita af þessum innherjaupplýsingum og hvatt hann til að kaupa sama valrétt og fyrirtæki hans átti.  Æskuvinurinn gat þannig hagnast á lækkun hlutabréfanna í Icelandair og er samkvæmt ákærunni sagður hafa haft rúmar 20 milljónir upp úr krafsinu. 

Í ákærunni kemur fram að starfsmenn héraðssaksóknara hafi við húsleit hjá starfsmanni Icelandair fundið þrjár milljónir í reiðufé sem hann er sagður hafa falið. 

Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram sá þeirra, sem var nýverið dæmdur í fangelsi fyrir peningaþvætti og rekstur á spilavíti, hafi greint frá því að hann hafi verið vinur beggja mannanna frá barnæsku en hinir tveir sögðust þekkjast lítið sem ekkert nema þeir hefðu einu sinni verið saman í útlöndum fyrir tveimur árum.