Inga sæland brast í grát í pontu: „ég ætlaði nú ekki að fara að grenja hérna“ - sjáðu myndbandið

Líflegar umræður sköpuðust á Alþingi í dag vegna frumvarps Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um breytingar á lögum um framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna. Þar fór Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, mikinn.

„Auðvitað, virðulegi forseti, er enn verið að skattleggja sárafátækt. Auðvitað, en ekki hvað. Á meðan við horfum hér á forstjóra og fyrirmenn, með allt að því tæpar 20 milljónir króna á mánuði í laun. Og okkur finnst það bara allt í lagi er það ekki? Það er það sem tekur fram meðaltalið hjá OECD. Milljóna- og milljarðamæringarnir á Íslandi sem geta sýnt góðu tölurnar, hvað við stöndum okkur vel í alþjóðasamanburði,“ sagði hún.

Inga vék máli sínu að bágri stöðu öryrkja. „En finnst þúsundum öryrkja með 212 þúsund krónur útborgaðar á mánuði þeir standa rosalega vel? Ég leyfi mér stórlega að efast um það. Það er eitt sem vakti athygli mína þegar ég var að skoða þetta frumvarp, þar sem stóð að það væri gert ráð fyrir því að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar, almannatrygginga nr. 45/2015, verði nú taldar til tekna, sem voru greinilega ekki áður taldar til tekna er það? Maður spyr sig, hvað er átt við með þessu? Er átt við að það er allt í einu verið að fara að telja til tekna, slysatryggingar samkvæmt almannatryggingalögum, sem ekki hafði verið gert áður? Er það tilfellið?“

Hún vísaði til nýfallins dóms sem móðir hennar vann í Landsrétti fyrir helgi. „Það er nýfallinn dómur á föstudaginn var í Landsrétti, þar sem við sjáum svart á hvítu, hvað raunverulega er verið að skerða. Fólk til dæmis með réttindi úr lífeyrissjóðum. Tveir og hálfur milljarður króna á mánuði, og ég leyfi mér að kasta því fram hér og nú, af því ég ætla nú ekki að tefja umræðuna, ég stend hér til að berjast gegn fátækt. Ég stend hér fyrir þjóðfélagshópinn sem ég er búin að tilheyra alla mína ævi.“

Ljóst var að Ingu var mikið niðri fyrir og barði hún í borð. „Að þurfa að horfa upp á þessa lítilsvirðingu gagnvart þessum þjóðfélagshópi, sýknt og heilagt hér á þessu háa Alþingi, það er alveg ótrúlegt,“ sagði hún og klökknaði við.

Inga hafði orð á því sjálf og sagði: „Ég ætlaði nú ekki að fara að grenja hérna síðan ég fór að grenja í beinni útsendingu fyrir síðasta kjördag.“ Þerraði hún því næst tárin og bætti við að lokum:

„En eitt er víst, að á þetta verður látið reyna fyrir dómi, það getur ekki verið mögulegt að þetta sé löglegt, það er ekki hægt.“