Illugi: „þetta er semsagt hann bergþór. finnst ykkur hann ekki skemmtilegur?“ meirihlutinn kúgaði stjórnarandstöðuna

„Hæ krakkar. Þetta er hann Bergþór. Þið munið, hann sem talar um konur sem „húrrandi klikkaðar kuntur“ og mælir þær eftir því hvort hann telur að typpið á sér passi í þær eða ekki. Núna er hann Bergþór orðinn formaður umhverfisnefndar Alþingis. Hann ætlar að sýsla um umhverfi Íslands á næstunni, hugsið ykkur hvað það verður huggulegt.“

Þetta segir Illugi Jökulsson á Facebook. Þar gagnrýnir Illugi einnig bæði stjórn – og stjórnarandstöðuþingmenn fyrir að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna í dag. En eins og komið hefur fram hlaut Bergþór Ólason tvö atkvæði þegar hann var kosinn formaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í dag og átti Bergþór annað atkvæðið en Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins hitt, aðrir sátu hjá. Illugi að megi þakka þessum þingmönnum fyrir ...

„ ... þetta nýjasta dæmi um hvað Alþingi er virkilega, virkilega traustsins vert. Fyrir utan náttúrlega Karl Gauta, hann lagði líka sitt af mörkum, vissulega. Þetta er semsagt hann Bergþór. Finnst ykkur hann ekki skemmtilegur?“

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata tjáir sig undir þræði Illuga segir að minnihlutinn hafi verið kúgaður og má skilja á honum að það hafi verið það eina sem var í boði.

Meirihlutinn og minnihlutinn höfðu gert með sér samkomulag. Stjórnarandstaðan fer með meirihluta í þremur þingnefndum og var samið um skiptingu á milli flokkanna og niðurstaðan að Miðflokkurinn stýrði umhverfis- og samgöngunefnd. Mikil óánægja var á meðal nefndarmanna að Bergþór tæki við formennsku en meirihlutinn hefur farið þá leið, samkvæmt stjórnarandstöðuflokkunum, að ef þeir hefðu greitt atkvæði gegn Bergþóri liti meirihlutinn svo á að ekkert samkomulag væri um formennskju í nefndum hjá minnihlutanum. Tæki þá meirihlutinn yfir formennsku í öllum nefndum.

Björn Leví segir að fleira óþægilegt hafi verið í „boði“ og bætir við á öðrum stað:

„Það kom fram í fréttum um daginn. Meirihlutinn hefði tekið allar nefndarformennskur og samstarf til framtíðar hefði orðið flóknara.“