Illugi: katrín stýrir ríkisstjórn ríka fólksins - standa vörð um hina efnuðu“

Fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt í gærmorgun og verður lagt fram á Alþingi á þriðjudag. Oddný Harðardóttir gagnrýnir að ekki sé reynt að bæta kjör aldraðra, öryrkja og barnafólks frekar. Þess í stað er staðið vörð um þá sem hafa hagnast mest í uppsveiflunni síðustu ár. Illugi Jökulsson rithöfundur gagnrýnir einnig hvernig staðið er að málum og segir Katrínu stýra ríkisstjórn ríka fólksins. Oddný segir við Vísi:

„Þetta frumvarp er byggt á fjármálaáætluninni sem var samþykkt í vor og við í Samfylkingunni við gagnrýndum hana harðlega. Við lögðum til breytingartillögur, við vildum verja velferðina í niðursveiflunni. Við vildum leggja meira til skólanna, bæta kjör aldraðra, öryrkja og barnafólks, leggja meira í nýsköpun og rannsóknir og til húsnæðismála og loftslagsmála.“

Þá segir Oddný  undarlegt að engar breytingar hafi verið gerðar á skattlagningu hæsta launaflokks. Það sé einnig undarlegt að ríkisstjórnin skuli standa vörð um þann hóp í samfélaginu sem hafi fengið að njóta uppsveiflunnar.

Illugi Jökulsson deilir viðtalinu við Oddný á samskiptamiðlum og segir:

„Einn er sá þjóðfélagshópur sem er ánægðastur með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það er ríka fólkið. Það siglir lygnan sjó, þarf ekkert að óttast því það veit að ríkisstjórn Katrínar passar upp á það og hleður bara betur undir það.

Það er auðvitað skrýtið að svokallaður vinstriflokkur skuli nú standa fyrir enn einni ríkisstjórn ríka fólksins en svona vildu Katrín og Svandís hafa það.“