Upplýsingar dv rangar: illugi ekki með 14 heldur 1,4 milljón á mánuði

lllugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, var ekki með 14 milljónir á mánuði á síðasta ári. Í gær fullyrti DV að Illugi hafi fengið þessa upphæð greidda á mánuði og vitnaði í Tekjublað sitt sem til stóð að kæmi út í dag.

Útgáfu þess hefur þó verið frestað til morguns. DV fullyrti í frétt sinni að tekjur Illuga væru rúmar 14 milljónir á mánuði og var birt mynd af Illuga með fréttinni. Sú frétt er enn á vef DV í dag þegar þessi frétt er skrifuð.

Hringbraut tók upp frétt DV en hefur frétt Hringbrautar verið uppfærð og henni breytt þar sem hún er byggð á röngum upplýsingum.

Í umfjöllun DV virðist sem komman hafi skolast til þar sem Stundin greinir frá því í dag að Illugi hafi verið með 1,4 milljónir króna á mánuði í fyrra samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Það þýðir að Illugi hafi verið með 16,8 milljónir króna í heildarárstekjur.

Hringbraut biður Illuga velvirðingar á þeim óþægindum sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna fréttarinnar. Hringbraut treysti á að þær upplýsingar væru réttar sem birtust á vef eins stærsta fjölmiðils landsins, DV, en þeim upplýsingum hefur sem áður segir enn ekki verið breytt þegar þetta er skrifað.