Íhuga að kæra sturlu: lofað gulli og grænum skógum en sátu uppi með dúfnaskít - margir orðið fyrir tjóni“

Í Gerplustræti 2-4 eru 32 íbúðir í tveimur stigagöngum. Þessar íbúðir voru auglýstar snemma árs 2018. Átti afhendingartími að vera í apríl en það hefur dregist í eitt og hálft ár. Fyrirtækið sem byggði húsin heitir Gerplustræti 2-4 ehf. Er það í eigu fjölmargra þekktra Íslendinga í gegnum Burð Invest. Sturla Sighvatsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Heimavalla var í forsvari fyrir verkefninu. Sturla er hvað þekktastur fyrir að hafa leikið aðalhlutverkið í  Benjamín dúfu. Í Fréttablaðinu er greint frá því að hluthafar íhugi málsókn á hendur Sturlu vegna tafarinnar. Sturla kennir hins vegar Arion-banka um.

Stærstu hluthafarnir eru Orri Guðmundsson lögmaður sem á 49 prósent hlut. Aðrir í hluthafahópnum eru meðal annars Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir og Gylfi Einarsson, eru þeir allir þekktir fyrir afrek sín á knattspyrnusviðinu. Þá á Ásgeir Kolbeinsson, fyrrverandi eigandi Austur, hlut í félaginu. Ásgeir tók nýlega sæti í stjórn félagsins og er eini stjórnarmaðurinn.

Ásgeir segir í samtali við Fréttablaðið að verkefnið hafi verið komið í veruleg vandræði og því hafi verið ákveðið að skipta um mann í brúnni. Hann harmar tjónið sem hefur orðið vegna tafarinnar. Ásgeir segir:

„Það hafa margir orðið fyrir tjóni, einstaklingar, fjárfestar og lánardrottnar, og það er auðvitað mjög leiðinlegt. Við leggjum allt kapp á að klára verkefnið sómasamlega og lágmarka tjónið fyrir alla hlutaðeigandi.“

Þá kemur fram í frétt Fréttablaðsins að stærsti lánadrottninn sé Arion banki með um 680 milljón króna lán á 1. veðrétt. Ólíklegt er að veðhafar fái kröfur sínar greiddar að fullu.

Sturla er eins og áður segir í forsvari fyrir verkefnið. Hann segir að verkefnið hafi farið í uppnám vegna þess að verktakafyrirtækið sem byggði húsið hafi orðið gjaldþrota. Sturla segir hann að ábyrgð Arion banka sé mikil, því lánað hafi verið í takt við framvindu verksins. Sturla segir:

„Þegar styttist í verklok boðaði verktakinn til fundar og sagðist þurfa að hækka verðið. Það setti allt verkefnið eðlilega í uppnám enda vorum við búnir að festa söluverð íbúðanna.“

Þegar verktakinn varð gjaldþrota, segir Sturla að þá hafi komið í ljós að verkefnið var komið skemur á veg en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hann segir ábyrgð bankans vera mikla en efast um að hægt sé að sækja bankann til saka.Þá hafa íbúar sem biðu eftir að fá afhent íhugað að leita réttar síns.

Þá segir orðrétt í Fréttablaðinu: „Þá herma heimildir Fréttablaðsins að aðrir hluthafar íhugi málsókn gegn Sturlu vegna verkefnisins. Hann hafi lofað þeim gulli og grænum skógum en þeir setið uppi með dúfnaskít.“