Icelandair valið besta flugfélag Evrópu – Vann alls þrenn verðlaun

Icelandair valið besta flugfélag Evrópu – Vann alls þrenn verðlaun

Starfsmenn Icelandair taka við verðlaununum
Starfsmenn Icelandair taka við verðlaununum

Icelandair hefur verið valið besta flugfélag Evrópu af Airline Passengers Experience Association (APEX). Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Dublin á Írlandi í gær. Frá þessu er greint í Markaðnum.

Icelandair hlaut sömuleiðis verðlaun fyrir besta afþreyingarkerfið á meðal evrópskra flugfélaga og bestu nettenginguna um borð, og vann því til alls þrennra verðlauna. Flugfélagið vann einnig verðlaunin fyrir besta afþreyingarkerfið á síðasta ári.

„Það er okkur hjartans mál að tryggja farþegum okkar góða upplifun um borð í vélum Icelandair. Icelandair hefur um árabil lagt sig fram við að auka þjónustu, valmöguleika fyrir alla aldurshópa í afþreyingu sem og önnur þægindi. Þessi verðlaun eru til marks um þann árangur sem Icelandair og starfsmenn félagsins hafa náð á því sviði og á því munum við byggja enn frekar,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, í fréttatilkynningu frá Icelandair.

APEX farþegaverðlaunin eru veitt á hverju ári og meta reynslu og upplifun farþega af flugfélögum. Um 500 flugfélög víðs vegar um heiminn taka þátt í könnun sem byggir á um milljón flugferðum.

Í könnuninni gefa farþegar flugfélögum einkunn sem byggir á heildarupplifun. Þeir geta svo í framhaldinu veitt einkunn fyrir ýmsa þætti sem taka til þjónustu og upplifun um borð, t.d. þægindum, þjónustu, veitingum, afþreyingarkerfum, nettengingu og öðru.

Nýjast