Í raun og sann er ég feiminn strákur

Ari Edljárn í persónulegu viðtali í Mannamáli í kvöld:

Í raun og sann er ég feiminn strákur

Það vatt einu sinni upp að mér maður þar sem ég var að skemmta og sagði ábúðarfullur við mig að ég ætti að fara að mennta mig svo ég gæti fengið mér almennilega vinnu. Varla ætlaði ég mér að vera skemmtikraftur til sjötugs. Og ég hugsaði málið si sona, svaraði honum um hæl að hér og nú hefði ég ákveðið mig; ég myndi verða eins lengi í þessu og Ómar Ragnarsson.

Hér talar Ari Eldjárn, vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar sem fer auðvitað á kostum í persónulegu samtali sínu við Sigmund Erni í viðtalsþættinum Mannamáli í kvöld. Hann talar um starf uppistandarans, allan undirbúninginn, sviðsframkomuna fyrir mann eins og hann sem í raun og sann er feiminn - og viðtökurnar, sjálft kikkið - að sjá salinn emjast af hlátri.

Og hann talar um missinn, segir frá Óla og Kristjáni sem fóru alltof snemma úr bræðrahópnum og hvernig hann hefur tekist á við þau særindi - og svo rifjar hann upp æskuna og árin með foreldrunum Unni og Þórarni sem fóru hvort sína leið í uppeldinu, en þeir feðgar vinna reyndar á sama stað á Klapparstígnum þar sem skáldið laumar á stundum efnishugmyndum að skemmtikraftinum.

Mannamál byrjar klukkan 20:00 í kvöld.   

Nýjast