Hvalur hf hefur veitt 78 langreyði

Veiðar á langreyð standa nú sem hæst á vegum Hvals hf. Hvalirnir eru veiddir á hvalveiðiskipunum Hvali 8 og Hvali 9 og þegar rætt var við stjórnendur vinnslunnar í Hvalfirði voru komin 78 dýr á land. Þetta kemur fram í frétt á vef Fiskifrétta

Bræla hefur gert skipunum erfitt fyrir með veiðarnar og segir Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson, stöðvarstjóri Hvals í Hvalfirði, að sumarið einkennist af mikilli ótíð og frátöfum. Hvalveiðiskipin sækja beint út af Hvalfirði í um 150 mílur. Dimmviðri var á miðunum þegar rætt var við Gunnlaug en Hvalur 8 var kominn með einn hval sem var landað í gær. Alls höfðu því veiðst 78 hvalir það sem af er vertíðinni.

„Það bara búið að vera ótíð og það setur svip sinn á veiðarnar. Hérna eru bæði nýir og eldri starfsmenn við hvalskurðinn en handtökin lærast fljótt ef menn hafa áhuga fyrir hlutunum,“ segir Gunnlaugur.