Hvað hefði jónas sagt?

Á árinu 1947 skrifaði Jónas H. Haralz hagfræðingur og bankastjóri greinina \"starfsemi auðhringanna\". Nú rúmlega 70 árum síðar eiga alþjóðlegir vogunarsjóðir alla föllnu bankana og 95% af Arion banka. Niðurstaða efnahagsreikninga bankakerfisins er um 3.600 ma. kr á meðan þjóðarframleiðsla er um 2.000 ma. kr. sem þýðir að bankakerfið er nánast helmingi stærra en allar tekjur þjóðarinnar. Þá voru tekjur bankanna um 150 ma. kr á síðasta ári eða um 7.5% af þjóðarframleiðslu fyrir utan þá þúsunda milljarða virðisauka frá efnahagashrunni. Þetta gerir bankakerfið eitt það stærsta og dýrasta í heimi fyrir utan að vera að stórum hluta í höndum bandarískra vogunarsjóða! Hvað hefði Jónas sagt?

Brot úr greininni \"Starfsemi auðhringanna\" (1947), eftir Jónas H. Haralz.

Enda þótt athygli manna á auðhringunum og hinni geysimiklu og afdrifaríku þýðingu þeirra fyrir hag- og stjórnmálaþróun tuttugustu aldarinnar hafi verið vakin fyrir löngu, hefur þó furðu lítið áreiðanlegt verið um þá og starfsemi þeirra vitað. 

Þeir hafa verið eins og voldugar skuggaverur, sem grillt hefur í, og hafa með ótal lítt sýnilegum þráðum ráðið kjörum og lífi miljóna manna, skipað örlögum heilla þjóða. Einstaka sinnum hefur tekizt að draga starfsemi sumra þeirra fram í dagsbirtuna, sýna fram á féflettingu þeirra á almenningi, völd þeirra á stjórnmálasviðinu.

[Bókin] „Out of your pocket\" (Úr yðar vasa) eftir Darel McConkey, er skrifuð frá alveg ákveðnu sjónarmiði. Hann lýsir því einnig, hvernig hringarnir leyna starfsemi sinni og hjúpa hana áferðarfallegum slagorðum um „frjálsa samkeppni\", „frjálst framtak einstaklingsins\", „frjálst athafnalíf\" o. s. frv.

Eins og flestir aðrir íbúar þessa hnattar höfum við Islendingar orðið að greiða þessum hringum og fjölmörgum öðrum drjúga skatta. Enn meiri þýðingu fyrir afkomu okkar mun þó starfsemi annarra hringa hafa, er drottna yfir sölu og verðlagi á ýmsum útflutningsafurðum okkar.

Hátterni og siðalögmál þessara auðhringa er í eðli sínu að engu frábrugðið þeim aðferðum lénsherra miðaldanna að setja slár yfir vegi og neyða alla vegfarendur að greiða sér vegskatt eða brúartoll; og ekki er heldur hægt að gera nokkurn greinarmun á þeim og hinum alþekktu amerísku bófum, sem láta friðsama borgara greiða sér skatt fyrir að fá að ganga óáreittir á götunum. Nefskatturinn til hringanna eru þó smámunir í samjöfnuði við þær ógnir og skelfingar, sem áhrif hringanna á stjórnmál og alþjóðamál geta dregið yfir mannkynið.