Hvað er þetta með bensínverðið?

Nú hafa kosningar og veðrið átt hug okkar allan og fátt annað rætt yfir volgum kaffibollum. Margur ætlar bara hreinlega „að flytja af klakanum“ og til Tenerife og lifa þar við ágæta ríkisstjórn og í dásamlegu veðri.

Persónulega hef ég bara hálft eyra opið fyrir þessu en veit þó það að samgöngumál eru kappsatriði og hvergi sé ég glitta í alvöru lausnir húsnæðismála.

Það er eitt sem hefur algjörlega gleymst í umræðunni. Hvað er eiginlega að gerast með bensínverðið ? Ég gerði mér nú ferð á bensínstöð Costco þegar ég sá svífandi hátt bensínverð á N1 eða lítrann á 232 kr! Mig svimar. Ég var búin að gera mig andlega reiðubúna í að sitja í bílaröð í lágmark hálftíma þegar ég kom að stöðinni. Ég beið í 10 mínútur. Er fólk í alvörunni að láta þetta yfir sig ganga ? Hvar eru mótmælendurnir okkar sem gengu eld og brennistein þegar eldsneytisverðið hækkaði hérna um árið ?

Það bar auðvitað engan árangur að beita ofbeldi - og ég er ekki að mæla með því, en ég bjóst við langri röð í Costco og gerði ráð fyrir því að allir væru að hugsa um það sama, að taka ekki þátt í þessu bulli, en sorglega staðreyndin var sú að svo var ekki.

Nú í samanburði við nágrannalönd okkar þá er lítrinn í Bretlandi á 154 kr., 143 kr. í Svíþjóð og 163 kr. á Spáni. Í Costco á Íslandi er hann 190 kr.

Ég  botna ekki í þessu.