Hringbraut tapar 62 milljónum króna

Samkvæmt ársreikningi 2017 nam tap Hringbrautar-Fjölmiðla ehf. 62 milljónum króna en heildarsala var 75 m.kr.

Bókfært eigið fé er 53 milljónir króna.

 Sjónvarpsstjóri Hringbrautar og einn eigenda er Guðmundur Örn Jóhannsson. Hann segir að uppbyggingarferlið, sem hófst í febrúar 2015, hafi tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir. Ekki þurfi að koma á óvart að það taki tíma og fjármuni að þróa sprotafyrirtæki eins og nýja sjónvarpsstöð alveg frá grunni. Hringbraut gjaldfærir allan kostnað við uppbygginguna en engin viðskiptavild er eignfærð. Það skýrir hluta tapsins.

 

„Það er hins vegar engin launung á því að rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi er mjög erfitt, ekki síst þeirra sem þurfa alfarið að lifa á auglýsingum og þáttagerð. Samkeppnisumhverfið er bjagað þar sem ríkisfjölmiðillinn RÚV fær milljarða á ári af skattfé úr ríkisstjóði og fer svo að auki mikinn á auglýsingamarkaði. Það þrengir vitanlega að öðrum. Löggjafinn verður að breyta þessu rekstrarumhverfi með marktækum hætti ef vilji stendur til þess að tryggja tilvist annarra fjölmiðla á Íslandi en hins ríkisrekna“, segir Guðmundur Örn.